Áfengi – engin venjuleg neysluvara

Nú hefur enn á ný verið lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á áfengislögum. Með frumvarpinu er lagt til að einkasala ÁTVR verði aflögð á öðru áfengi en því sem er með meiri vínandastyrk en 22%. Einnig er lagt til að áfengisgjald verði lækkað. Ljóst er að verði frumvarpið samþykkt mun aðgengi að áfengi aukast og einnig verður það ódýrara.

Árið 2003 kom út bókin Alcohol: No Ordinary Commodity – Research and Public Policy eftir Baber o.fl. Þar hefur verið rýnt í allar helstu rannsóknir sem nýtast við stefnumótun í áfengismálum. Nálgast má þýðingu á útdrætti bókarinnar á vef Lýðheilsustöðvar (www.lydheilsustod.is).

Fyrsti hluti bókarinnar fjallar um þá byrði sem áfengisvandi hefur í för með sér á alþjóðavísu. Þar kemur fram að áfengi getur valdið líkamlegum, andlegum og félagslegum skaða vegna eituráhrifa á líkamann, vímu og fíknar. Meginskýringin á samfélagslegu tjóni af völdum áfengis er vegna vímunnar sem hefur í för með sér ofbeldi, umferðarslys og önnur slys.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mátti á árinu 2000 rekja 4% dauðsfalla og örorku í heiminum til áfengis og ber þá að líta til þess að í hinum vestræna heimi er áfengisneysla mun meiri en t.d. í Afríku og í íslömskum löndum. Í fyrrum löndum Sovétríkjanna hefur orðið lækkun á meðalaldri, sem helst í hendur við aukna áfengisneyslu.

Leiðir til að draga úr skaðanum
Áfengi er vímuefni sem getur valdið fíkn og er því engin venjuleg neysluvara. Þess vegna hafa flestar þjóðir reynt að nota ýmiss konar leiðir til að stýra neyslunni. Annar hluti ofannefndrar bókar fjallar um vísindaleg rök fyrir ýmsum leiðum til að koma í veg fyrir eða draga úr skaða sem rekja má til áfengisneyslu og verður gerð grein fyrir nokkrum þeirra hér.

Verð og skattlagning er leið sem margar þjóðir nota og rannsóknir hafa sýnt fram á að verð hefur áhrif á neysluna. Enn fremur sýna hagtölur að samhengi er milli hækkunar áfengisskatta,  áfengisverðs og fækkunar vandamála sem rekja má til áfengisdrykkju.

Stýring á aðgengi að áfengi er einnig algeng leið til að takmarka áfengisneyslu. Rannsóknir á takmörkun aðgengis sýna að takmörkun afgreiðslutíma, fjölda söludaga og sölustaða helst í hendur við minni neyslu og tjón af völdum hennar.

Niðurstöður rannsókna benda eindregið til þess að einkasala ríkisins á áfengi dragi úr neyslu og tjóni sem af henni hlýst og ef einkasölunni er aflétt aukist heildarneysla áfengis. Athygli vekur að í bókinni kemur fram að fræðsla skilar ekki mælanlegum árangri en opinberar aðgerðir verulegum.

Höfundar bókarinnar mátu 32 tegundir leiða til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Eftirfarandi tíu leiðir standa upp úr þegar móta skal áfengisstefnu:

  • Aldurstakmarkanir við áfengiskaup
  • Ríkiseinkasala áfengis
  • Takmarkanir á sölutímum og söludögum
  • Takmarkaður fjöldi sölustaða
  • Áfengisskattar
  • Lög um leyfilegt magn áfengis í blóði ökumanna
  • Eftirlit með ölvunarakstri
  • Ökuleyfissvipting við ölvunarakstri
  • Ökuleyfi með skertum réttindum handa nýjum ökumönnum
  • Stutt úrræði handa fólki sem drekkur mikið (áhættuhópi).

Þessar niðurstöður renna gildum stoðum undir þá áfengisstefnu sem hefur verið mótuð á Íslandi og breytingar á löggjöf um aðgengi og verð á áfengi geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir lýðheilsu hér á landi.

 

Grein þessi er fengin af vef Landlæknisembættisins og birt með góðfúslegu leyfi