Æðahnútar og háræðaslit

Æðahnútar kallast það, þegar bláæðar í ganglimum víkka og lengjast og mynda sjáanlega hnúta undir húðinni. Samfara þessu verða víkkanir á minni húðæðum sem kallast á íslensku háræðaslit (reticular veins – spiders).

Er þessi kvilli algengur?

Já, nákvæmar tölur er erfitt að fá en flestir telja að helmingur allra kvenna fá æðahnúta í einhverri mynd en eitthvað færri karlar.

Hver er örsök æðahnúta?

 

 

Ekki er nákvæmlega vitað hvað veldur æðahnútamyndun i ganglimum en það eru ákveðnir áhættuþættir sem eru þekktir, þeir eru kyn, aldur, erfðir, meðganga og offita.

Horfur sjúklinga með æðahnúta?

 

Þegar æðhnútar hafa myndast þá er komin skemmd, sem ekki grær heldur stækka hnútarnir og breiðast út. Þessi þróun er þó mjög hægfara og margir sjúklinga þurfa ekki á meðferð að halda. Hjá öðrum sjúklingum er myndin allt önnur,þeir fá veruleg einkenni frá sínum æðahnútum en það er í fyrsta lagi þreyta og þyngsla tilfinning í fótum. Enn aðrir verða fyrir slíkri blóðrásarskerðingu að exem myndast og það getur síðan leitt til fótasárs.

Hvenær er ástæða til að leita læknis?

 

Þegar einkenni byrja að hrjá fólk og.þá sérstaklega ef ástand versnar skyndilega því þá má ætla að nauðsynlegt sé að sj. fari í meðferð.

Meðferð æðahnúta?

Kjörmeðferð er skurðaðgerð. Tilgangur hennar er að fjarlægja æðahnútana en skilja eftir allar heilar æðar, sem yfirtaka blóðflæðið. Þessar aðgerðir eru að jafnaði gerðar í svæfingu en mögulegt er að gera þær í svæðis-og leiðsludeyfingu,- þoli sjúklingur illa svæfingu eða sé henni mótfallinn. Miklar framfarir hafa orðið á þessu sviði æðaskurðlækninga, ekki síður en á öðrum sviðum skurðlækninga. Markmiðið er að gera aðgerðina með sem minnstum áverka fyrir sjúkling því þá er hann fljótari að jafna sig og verkir verða minni í kjölfar aðgerðar. Útlitslega hefur þessi nýja tækni gjörbreytt árangri því að sj fá ekki lengur stór ör í kjölfar aðgerða eins og áður var algengt. Stærstu æðahnúta tekst að taka út í gegnum skurð sem er ekki stærri en 1-3 mm. Þessi nýja tækni skilur því ekki eftir sig ör á ganglimum. Eina undantekningin frá þessu eru skurðir sem lagðir eru í nára en lengd þeirra getur orðið allt að 4 cm. en til að forðast áberandi örmyndun eru þeir lagðir í náravikið og leynist örið vel þannig. Til að ná sem bestum lokaárangri hvað varðar útlit og endingu aðgerðar er æskilegt að eyða minniháttar æðahnútum með sclerotiseringu en hún er fólgin í því að sprauta sérstöku efni inn í æðahnútana. Þessi efni valda ertingu í æðaveggnum sem leiða til eyðingu æðarinnar.

Í ákveðnum tilfellum verður skurðaðgerð ekki beitt vegna ýmsra ástæðna. Almennt heilsufar sjúklings leyfir ekki alltaf aðgerð og einnig geta verið sjúkdómar í djúpa bláæðakerfinu sem torvelda skurðaðgerð. Hvað er þá til ráða? Þá koma teygjusokkar að góðum notum. Mikilvægt er að kaupa sokka af vandaðri gerð og fá ráðgjöf um heppilega stærð, gerð og teygjanleika. Ráðgjöf í þessum efnum er auðvelt að fá hjá þeim fyrirtækjum sem selja þessa vöru.

Meðferð háræða.

Meðferð háræða verður fyrst árangursrík eftir að búið er að fjarlægja æðahnúta stærri æða en þá er að jafnaði búið að ráða bót á þeim yfirþýstingi í bláæðakerfinu, sem veldur háræðasliti. Meðferðarmöguleikar á háræðasliti eru tveir, annarsvegar er sprautumeðferð og hinsvegar lasermeðferð.

Sprautumeðferð er fólgin í því að sprauta sérstökum ertandi efnum með örfínum nálum í þessar litlu húðæðar. Þetta er árangursrík meðferð en tímafrek. Þessar æðar geta þó verið svo fíngerðar að erfitt er að komast inn í þær með nál.

 

Lasermeðferð byggir hinsvegar á því að eyða þessum æðum með lasergeislum. Þetta er árangursrík meðferð og eina leiðin til meðferðar þegar háræðar eru svo grannar að ekki er gerlegt að komast með nál inn í þær. Lasermeðferð er sérlega heppileg þegar um háræðaslit í andliti er að ræða. Með lasergeislum má einnig eyða litabreytingum sem stundum koma eftir aðgerðir.

 

Hver er áhætta við skurðaðgerð á æðahnútum?

 

Áhætta við skurðaðgerðir er lítil en þó má aldrei gleymast að hún er fyrir hendi. Algengast er minniháttar blóðhlaup og grunnar sýkingar. Þetta gerist í u.þ.b. 10 % tilfella.

Hver er árangur sku&et h;aðgerða?

 

Því miður getur fólk átt von á nýjum æðahnútum í 20-40% tilfella. Þennan lélega árangur má í tveimur af hverjum þremur tilfellum rekja til ófullnægjandi meðferðar á nárasvæði.Því er mjög mikilvægt að rannsaka æðar sjúklings vel fyrir aðgerð og sérstaklega í nára en þar geta leynst bilanir sem dyljast. Ekki síst er mikilvægt að aðgerð sé framkvæmd af reyndum æðaskurðlækni.

Hvenær er sjúklingur vinnufær?

Það er misjafnt og fer meðal annars eftir umfangi aðgerðar hverju sinni.Flestar aðgerðir er gerlegt að gera utan sjúkrahúsa og sjúklingar fara þá heim samdægurs. Margir eru vinnufærir eftir nokkra daga aðrir þurfa lengri tíma, 2-3 vikur og fer það fyrst og fremst eftir almennu heilsufari og starfi.

Hvað getur sjúklingur sjálfur gert til að forðast myndun æðahnúta?

Besta ráðið er að hreyfa sig reglulega og forðast langtíma setu og kyrrstöðu. Fætur endast best séu þeir notaðir!!

Höfundur Halldór Jóhannsson dr. med.
Starfar nú sem sjálfstæður sérfræðingur í æðaskurðlækningum Læknahúsinu ehf. Domus Medica.