Aðstandendur

Það er ekki bara hinn veiki sem þjáist, byrðin er oft mikil fyrir nánustu aðstandendur. Þeir spyrja sig oft hvort hegðun sé eðlileg og velta fyrir sér hvort þeir séu að gera úlfalda úr mýflugu. Hvað er hluti af skapferli einstaklings og hvað eru einkenni þess að hann sé að veikjast? Hvert er hægt að leita eftir aðstoð?

 

 

 1. Hvað er óeðlileg hegðun? 
 2. Hvenær er hegðun orðin óeðlileg? 
 3. Hvað hjápar mér við að meta óeðlilega hegðun? 
 4. Hvert er hægt að leita? 
 5. Hvað er gert á göngudeild geðdeildar? 
 6. Hvað er nauðungarvistun? 

 

 

 

1. Hvað er óeðlileg hegðun?
Þegar hegðun einstaklings fer út yfir þau mörk sem eðlileg geta talist er einnig um að ræða breytingar á fleiri þáttum sem sameiginlega skapa persónu hans. Hér er annars vegar verið að tala um hegðun sem er skrítin og undarleg en truflar þó ekki aðra á beinan hátt og hins vegar er um að ræða hegðun sem fer út fyrir eðlileg mörk á neikvæðan hátt.
(Eydís Sveinbjarnardóttir og Unnur Heba Steingrímsdóttir: Leiðarljós, Landsspítalinn 1998)

 

2. Hvenær er hegðun orðin óeðlileg?
Hegðun getur talist óvenjuleg og óeðlileg þegar einstaklingur
– hefur hegðað sér mjög ólíkt hans venjubundnu hegðun yfir ákveðinn tíma
– er farinn að trufla félagslegt umhverfi sitt og stuða annað fólk, særa það eða trufla
– hefur skaðleg áhrif á sig eða umhverfi sitt
(Eydís Sveinbjarnardóttir og Unnur Heba Steingrímsdóttir: Leiðarljós)

 

3. Hvað hjápar mér við að meta óeðlilega hegðun?
Ef um er að ræða hegðun sem fer út fyrir eðlileg mörk, er mikilvægt að “kortleggja” hana. Taka þarf mið af hve oft, hvar hún gerist, hverjir eru nálægt, hve lengi hún stendur yfir, hvað var einstaklingurinn að gera rétt áður og hvaða þættir auka á eða draga úr einkennunum.

 

Hvernig get ég minnkað líkur á því að hegðun fari úr böndum og jafnframt gefið til kynna hvaða hegðun er viðurkennd?
Þegar þú hefur lært að þekkja hvenær hegðun er orðin óvenjuleg er mikilvægt að grípa sem fyrst inn í. Það sem hefur reynst vel er að tala rólega, ákveðið og hreinskilið við einstaklinginn. Nýta tímabil sem hann er í jafnvægi til að auka innsæi og eigin ábyrgð.

 

Gott er að rökstyðja með dæmum, gefa einföld, skýr skilaboð og gæta samræmis milli orða og gjörða. Búa til einfaldar reglur og gera samning sem hægt er að vísa í. Þegar fjölskyldan þekkir orðið einkenni og þau viðbrögð sem reynast best, myndast smám saman traust og stöðugleiki í samskiptum.

 

4. Hvert er hægt að leita?
Hægt er að senda fyrirspurn á www.Doktor.is/depnet, ef hins vegar þarf svar eða leiðbeiningar strax þarf að leita annað.

 

Hægt er að hringja á skrifstofu Geðhjálpar á skrifstofutíma sími:570-1700. Þangað hringir oft fólk sem líður illa eða á ættingja/venslamanneskju sem gæti átt við geðræn vandamál að stríða. Oft eru menn óvissir um hvert leita beri hjálpar.

 

Hér er bent á nokkrar færar leiðir sem ættu að minnsta kosti að tryggja viðtal við fagfólk sem getur þá beint mönnum áfram.

 

· Heimilislæknar geta hjálpað þér að meta ástandið og leiðbeint um framhaldið

 

· Göngudeild geðdeildar er opin 8.30 – 16.00 alla virka daga, s. 543 4050, einnig má hringja í aðalnúmer Landspítalans og biðja um vakthafandi lækni á geðdeild s:543 1000

 

· Eftir kl. 16.00 er Bráðaþjónustan með vakt alla virka daga til 22.00 og 13 – 20 um helgar, s. 543 4050, einnig má hringja í aðalnúmer Landspítalans og biðja um vakthafandi lækni á geðdeild s:543 1000

 

· Nætursími Bráðaþjónustu Landsspítalans 560 4050, einnig má hringja í aðalnúmer Landspítalans og biðja um vakthafandi lækni á geðdeild s:543 1000

 

· Fjórðungssjúkrahús Akureyrar hefur geðdeild en þar er enn sem komið er ekki göngudeild. Best er að hringja þangað í vaktahafandi lækni eða bóka tíma hjá geðlæknum deildarinnar. Vaktsími á geðdeild er 463 02 01.

 

5. Hvað er gert á göngudeild geðdeildar?
Göngudeild Landsspítala: Móttökuteymi lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa tekur á móti sjúklingum alla virka daga. Móttökuteymið er staðsett á göngudeild geðdeildar. Best er að hringja á undan, tala við hjúkrunarfræðing og panta tíma. Ef mikið liggur við er unnt að mæta án tímapöntunar á þessum tíma. Sjúklingar fá fyrst bráðaviðtal við einn meðferðaraðila úr teyminu. Í bráðaviðtalinu er metið hvaða aðstoð sjúklingurinn þarf og honum leiðbeint um framhaldið. Ef sjúklingar þurfa frekari þjónustu er mögulegt að bjóða upp á 2 – 3 vikna bráðameðferðartíma hjá mótttökuteyminu. Að þeim tíma loknum er fólk aðstoðað við að fá áframhaldandi þjónustu. Mótttökuteymið metur einnig nauðsyn þess fyrir sjúkling að leggjast inn.

 

Göngudeild Barna– og unglingageðdeildar, Dalbraut 12 er opin frá 8 – 16 alla virka daga. S&iacut e;mi er 543 4300.

 

Áfengismeðferð
Göngudeild áfengis og vímuefnaskorar er opin alla virka daga kl. 08 – 11 f.h. án tímapöntunar. Deildin er staðsett á 2. hæð (32E). Þeim sem eiga við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða er bent á að leita þangað beint. Síminn þar er 543 4050.

 

Meðferðarstöðin Teigur
Meðferðarstöðin Teigur starfar í samvinnu við Geðdeild Landsspítalans. Þar er bæði innlagnarmeðferð og göngudeildarmeðferð, ráðgjöf, viðtöl og fjölskyldumeðferð. Teigur er ekki afvötnunarstöð og tekur aðeins inn þá sem vilja fara í meðferð. Síminn er 543 4710.

 

Göngudeild SÁÁ
Göngudeild SÁÁ er til húsa að Síðumúla 3 – 5, s. 530 7600. Þar eru veitt einkaviðtöl fyrir foreldra og börn, hópastarf fyrir foreldra og börn og fræðslufyrirlestrar.

 

6. Hvað er nauðungarvistun?
Stundum telja ættingjar og læknar að veikur einstaklingur þurfi að leggjast inn en hann er sjálfur ekki sammála. Sé þessi einstaklingur mjög veikur er möguleiki að nauðungarvista hann. Með nauðungarvistun er bæði átt við það þegar sjálfráða maður er færður nauðugur í sjúkrahús og haldið þar og þegar manni sem dvalið hefur í sjúkrahúsi af fúsum og frjálsum vilja er haldið þar nauðugum. Ákvæði um nauðungarvistun eru í lögræðislögum nr. 71/1997. Með þeim varð meðal annars sú breyting frá eldri lögum að ekki er nauðsynlegt að svipta lögráða einstakling sjálfræði til nauðungarinnlagnar, hægt er að vista hinn veika í allt að þrjár vikur án þess að sjálfræðissvipting fari fram.

 

 • Nauðungarvistun má ekki vara lengur en 48 klst. nema til komi úrskurður dómsmálaráðuneytis. 
 • Nauðungarvistun er gerð í samráði við lækni geðdeildar. 
 • Ættingi í beinan legg og systkyni, lögráðamaður hins veika og félagsmálastofnun eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað hans geta lagt fram beiðni um nauðungarvistun til dómsmálaráðuneytisins. 
 • Eyðublöð fást hjá dómsmálaráðuneyti og þeim þarf að skila undirrituðum til ráðuneytis ásamt yfirlýsingu læknis um að nauðungarvistun sé óhjákvæmileg. 
 • Dómsmálaráðuneytið tekur málið þegar til meðferðar. Eftir lokun og um helgar er bakvakt í síma 552 5127. 

Ef nauðsynlegt þykir er trúnaðarlæknir ráðuneytis fenginn til að meta sjúkling.

Þessi grein er unnin upp af grein á vef Geðhjálpar

Jórunn Frímannsdóttir

Hjúkrunarfræðingur www.Doktor.is