Aðskotahlutur í öndunarvegi

Öndunarvegur getur stíflast ef aðskotahlutur hrekkur ofan í háls. Þegar stendur í fólki er algengast að matarbiti hafi farið niður í öndunarveg í stað vélindans. Lítil leikföng eða aðrir smáhlutir sem börn stinga upp í sig geta farið sömu leið.

Hvað sérðu?

· Einstaklingurinn getur ekki talað, hóstað eða andað og grípur um hálsinn.

Hvað gerirðu? – fullorðnir og börn eldri en eins árs

· Hvettu viðkomandi til að hósta kröftuglega, ef hann getur.
· Ef aðskotahluturinn losnar ekki hallaðu viðkomandi fram, haltu með annarri hendinni við bringuna og sláðu þéttingsfast með hinni fimm sinnum á milli herðablaðanna. Ef aðskotahluturinn losnar ætti hann að koma út um munninn í stað þess að fara lengra niður í öndunarveginn.
· Beittu þrýstingi á efri hluta kviðar (Heimlich). Stattu aftan við manneskjuna og gríptu um kvið hennar rétt fyrir ofan nafla. Krepptu hnefa annarrar handar og gríptu um hann með hinni hendinni.  Þrýstið allt að 5 sinnum snöggt inn á við og upp.
· Ef einstaklingurinn missir meðvitund, skaltu hringja í Neyðarlínuna 112 og byrja endurlífgun.

Hvað gerirðu? – ungbörn

· Leggðu barnið á grúfu yfir framhandlegginn þannig að andlitið sé í lófanum og sláðu 5 sinnum þéttingsfast á milli herðablaðanna.
· Snúðu barninu við og þrýstu 5 sinnum með tveimur fingrum á miðjan brjóstkassann.
· Ef barnið missir meðvitund skaltu hringja í Neyðarlínuna og hefja endurlífgun.

 

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands