Aðrar augnaðgerðir (sjónlagsaðgerðir)

Fyrir nokkrum áratugum nutu skurðaðgerðir við nærsýni með hefðbundnum skurðáhöldum miklum vinsældum, einkum í Sovétríkjunum og síðar í Bandaríkjunum og fleiri löndum. Þessar aðgerðir kölluðust á ensku radial keratotomy (RK), sem má útleggja sem geislalínuskurður í hornhimnu. Margir einstaklingar fengu bót á nærsýni eftir þessa aðgerð. Fylgikvillar hennar voru þó talsverðir og aðgerðin þótti ekki nægilega nákvæm. Þetta varð til þess að margir augnlæknar kusu heldur að bjóða sjúklingum sínum upp á hefðbundnar lausnir, svo sem gleraugu og snertilinsur. Líkt og á öðrum Norðurlöndum náðu þessar skurðaðgerðir engri verulegri útbreiðslu hér á landi.

Notkun hefðbundinna skurðáhalda við sjónskekkju hefur þó haldið velli, enda um færri fylgikvilla að ræða eftir þessa tegund aðgerðar. Ástæður þessa eru þær að búnir eru til skurðir við jaðra hornhimnunnar í stað þess að búa til skurði í geislamynstri út frá miðju hennar. Jaðarlínuskurðir af þessu tagi geta lagað sjónskekkju upp að 2-3 díoptríum. Þessi aðgerð er kölluð astigmatic keratotomy (AK) á ensku sem gæti útlagst sem jaðarlínuskurðir við sjónskekkju á íslensku. Við bjóðum upp á þessa aðgerð í vissum tilfellum sjónskekkju.

LASERAÐGERÐIR

Á síðasta áratug þróuðust aðgerðir við sjónlagsgöllum sem byggðust á lasertækni. Þessi tækni gerði mögulegt að breyta lögun hornhimnunnar af mikilli nákvæmni. Þessari tækni hefur vaxið mjög fiskur um hrygg og hefur hún náð gríðarlegri útbreiðslu um heim allan. Nægir að nefna Bandaríkin, þar sem aðgerðin LASIK er orðin algengasta skurðaðgerð sem framkvæmd er. Laseraðgerðir ná fyrrnefndri nákvæmni með því að nota tölvustýrða ljósorkupúlsa sem nema brott 1/5000 úr millimetra á sekúndubroti. Þessir orkupúlsar sundra sameindatengjum í hornhimnu og má segja að vefurinn „gufi upp“. Þessar aðgerðir eru því ólíkt áreiðanlegri hvað varðar útkomu en fyrri aðgerðir. Má í raun segja að takmarkandi þáttur er ekki lengur nákvæmni laserskurðarins, heldur gróandi hornhimnu hvers og eins. Mynd 1 sýnir stækkað mannshár sem hefur verið skorið með laser. Notkun lasertækni við sjónlagsaðgerðir á sér langa og merkilega sögu, þótt aðgerðin í núverandi formi sé nýleg.

PHOTOREFRACTIVE KERATECTOMY (PRK)

Photo = Ljós
Refractive = Sjónlag
Keratectomy = Brottnám hluta úr hornhimnu

Þessi aðgerð byggir á því að laser fjarlægir hluta af hornhimnu sem breytir lögun hennar. Áður en lasergeislanum er beint á hornhimnuna er yfirborð augans, svokölluð þekja (epithelium) fjarlægt. Lasergeislinn aðskilur síðan með mikilli nákvæmni sameindatengi á milli frumna í hornhimnunni líkt og fyrr er lýst.mynd 1

Yfirborði augans breytt með laser (mynd 3) eftir að þekjan hefur verið fjarlægð (mynd 2) Lasermeðferðin tekur oftast innan við mínútu. Eftir lasermeðferðina er lögun hornhimnunnar ólík því sem fyrir var til að ljósgeislarnir lendi á réttum stað á sjónhimnu.

mynd 2

Eftir þessa meðferð er lögð snertilinsa á augað sem hlífir yfirborðinu í 2-3 daga. Vegna þess að þekjan er fjarlægð fyrir lasermeðferðina er sjónin svolítið óskýr í nokkra daga. Hún skýrist á nokkrum dögum en nokkrar vikur til mánuði tekur að ná tilætlaðri sjónskerpu. Væg bólguviðbrögð geta einstöku sinnum leitt til bandvefsmyndunar. Þetta hefur oftast engin áhrif á sjón, nema bandvefsmyndunin verði óvenjumikil. Mikilvægt er að hafa þétt eftirlit með þeim sem gangast undir PRK til að fylgjast með sjón og ástandi augna. mynd 3

Vefur Sjónlags, lasik.is