Aðkoma að umferðarslysi

Oft getur vettvangur slyss boðið aukinni hættu heim, ekki síst ef umferð er mikil. Það er mjög mikilvægt að tryggja öryggi á slysstað og draga þannig úr hættu á frekari slysum á fólki. Ekki skal flytja slasaða úr stað nema þeir séu í yfirvofandi hættu.

Fjögur skref skyndihjálpar á slysstað

  1. Tryggja öryggi og koma þannig í veg fyrir frekara slys. Það felur m.a. í sér að setja upp aðvörunarþríhyrning, stjórna umferð, kveikja á neyðarljósum og drepa á bílum.
  2. Meta ástand hins slasaða til að greina hvort um lífshættulegt ástand er að ræða eða ekki. Aðstæður á vettvangi og umkvartanir slasaðra gefa strax góða mynd af ástandinu.
  3. Kalla til hjálp. Þegar hringt er í Neyðarlínuna 112 þarf að taka fram hvað gerðist, hvar slysið varð, hver er slasaður og í hvaða ástandi hann er og hversu margir lentu í slysinu.
  4. Veita viðeigandi skyndihjálp á rólegan og yfirvegaðan hátt.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross íslands.