ADHD samtökin

ADHD samtökin eru til stuðnings börnum, unglingum og fullorðnum með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir og fjölskyldum þeirra. ADHD er alþjóðleg skammstöfun sem stendur fyrir Attention Deficit Hyperactivity Disorder eða athyglisbrestur og ofvirkni.

 

Um ADHD og niðurstöður rannsókna; orsakir, tíðni og framtíðarhorfur

Niðurstöður rannsókna beggja megin Atlantshafsins sýna að um 5% barna í hverjum árgangi greinast með athyglisbrest og ofvirkni. Orsakir athyglisbrests eru líffræðilegar og stafa af truflun boðefna í miðtaugakerfi. Rannsóknir benda ennfremur til þess að þessi röskun gangi í erfðir. Þessi börn og unglingar eiga erfitt uppdráttar bæði námslega og félagslega. Um 70% þeirra eru áfram með einkenni athyglisbrests og ofvirkni sem fullorðin og um 30% þeirra þróa með sér alvarleg sálfélagsleg vandamál og ánetjast vímuefni. Rannsóknir sýna ennfremur framá að fangelsin eru hálffull af brotamönnum með þessa greiningu.

Á Íslandi er miðað við að í hverjum árgangi séu um 4000 börn, ef 5% þeirra eru með athyglisbrest og ofvirkni þá gera það um 200 börn í árgangi, ef við tökum síðan alla 10 bekki grunnskólans þá eru það um 2000 börn á grunnskólaaldri sem eiga við þennan vanda að stríða. Þessar tölur eru dregnar hér fram til að gefa hugmynd um stærð hópsins. Skv. kennurum er hópurinn enn stærri og þá eru gjarnan talin með börn með námsvanda s.s. vegna lesblindu eða aðlögunarvanda og vanlíðan vegna “Tourette” kækja, áráttu-og þráhyggju, kvíða eða þunglyndis.

Þróun samtakana

Á aðeins örfáum árum hefur Foreldrafélag misþroska barna þróast úr að vera öflugt foreldrafélag með megináherslu á fræðslu- og upplýsingaþjónustu, í ADHD samtökin sem hafa staðið jafnfætis öðrum hagsmunafélögum barna með sérþarfir að stofnun og rekstri Sjónarhóls. Eins og alþjóð veit hefði ráðgjafarmiðstöðin Sjónarhóll aldrei orðið að veruleika ef ekki hefði komið til samstarf stærstu hagsmunafélaga barna með sérþarfir og stuðningur þjóðarinnar, fyrirtækja og ríkisins.

Starfsemi ADHD samtakanna þenst út með hverju árinu sem líður. Málefni fullorðinna með ADHD heyra nú jafnframt undir samtökin, þess vegna eru samtökin ekki lengur eingöngu foreldrafélag. Samtökin hafa á undanförnum árum veitt þjónustu í formi fræðslunámskeiða fyrir foreldra og stuðningshópa fyrir börn, unglinga, foreldra og fullorðna með ADHD. Árangursmat liggur fyrir um námskeið og stuðningshópa. Ennfremur hafa samtökin staðið að fjölbreyttri útgáfu um málefnið. Haustið 2005 kom út barnabók um ofvirkan dreng og nú þegar hafa verið gefin út vönduð smárit um ADHD sem m.a. verður dreift til allra grunnskólakennara á landinu í ágúst 2005, til allra félagsmanna og til allra þeirra sem í starfi sínu koma að málefnum viðkomandi barna og unglinga. Foreldrar sem eru skráðir félagsmenn eru jafnt frá höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Skráðir félagsmenn eru nú yfir þúsund og stöðugar nýskráningar berast vikulega í gegnum vefsíðu. Tekið skal fram að bak við hvert nafn stendur fjölskylda, vegna þess að aðeins eitt foreldri í hverri fjölskyldu er skráð sem félagsmaður. Þörf er á fræðsluátaki um málefnið til allra þeirra aðila sem vinna með börnum og unglingum bæði hjá borg og ríki. Samtökin hafa ætíð verið í samstarfi við helstu sérfræðinga í ADHD hjá börnum og unglingum. Þörfin fyrir starf þessara samtaka er ótvíræð og forvarnargildið er ótvírætt.

Hlutverk

ADHD samtökin gegna veigamiklu hlutverki gagnvart öllum fjölskyldum barna með ADHD og fullorðnum með ADHD; hagsmunagæslan, fræðslu- og upplýsingaþjónustan, útgáfustarfið, vefsíða, norrænt samstarf, námskeið og stuðningshópar, þróun starfsins á landsbyggðinni, allt eru þetta verkefni og starfsemi sem þörf er á fyrir þann stóra hóp fjölskyldna og einstaklinga sem til okkar leita. Málefni framhaldsskólanema með athyglisbrest og ofvirkni er nánast algerlega óplægður akur. Niðurstöður Rannsóknar og greiningar á utanskólanemendum á framhaldskólaaldri benda til að ungt fólk með athyglisbrest og ofvirkni séu áberandi í hópi brottfallsnema á framhaldsskólastiginu. Svona mætti lengi telja.

Textinn er tekinn af vef ADHD samtakana www.adhd.is ADHD samtökin eru til stuðnings börnum og fullorðnum með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir, sem og fjölskyldum þeirra.

 

ADHD samtökin hafa aðsetur að Háaleitisbraut 13, Reykjavík

Sími: 581-1110

Netfang: adhd@adhd.is

Heimasíða: www.adhd.is