Aðferðir við prófanir

Hvað sýnir þrekpróf?

Eins og kemur fram í lýsingu í greininni Þrekpróf er hægt að setja jafnaðarmerki milli líkamlegra burða og hugtaksins þrek. Mikið þrek merkir jafnframt mikla andlega vellíðan, mikið streituþol og mikinn viðnámsþrótt gegn sjúkdómum. Þess vegna segir þrekpróf heilmikið um almennt heilbrigði fólks.

Hvað er þrekpróf?

Cooper-próf og þrepapróf Åstrands eru svonefnd óbein próf án hámarksálags (submaximal) sem segja til um líkamsþrek. Í prófum án hámarksálags er miðað við að beint samband sé milli hjartsláttar, hreyfiálags og súrefnisupptöku. Því miður ríkir talsverð óvissa um þessar forsendur en prófin gefa mjög góðar vísbendingar. Segja má að slík próf sem tekin eru með jöfnu millibili segi mjög nákvæmlega til um það hvort einstaklingurinn hafi bætt þrek sitt. Þ.e.a.s. hvort þjálfun/heilbrigði stefni í rétta átt.

Þrekpróf geta verið ónákvæm

Mesti skekkjuvaldurinn í þessum prófum kemur fram þegar hámarkshjartsláttur einstaklinga er ekki "eðlilegur". Yfirleitt er hámarkshjartsláttur u.þ.b. 220 mínus aldur.

  • Ef hámarkshjartsláttur er minni en eðlilegt er hjá þér miðað við aldur verður álagspúls undir hámarki (púlsinn hjá þér í prófinu) lágur. Þrektalan reiknast því of há.
  • Ef hámarkshjartsláttur er á hinn bóginn hærri en eðlilegt er miðað við aldur verður álagspúls undir hámarki hár. Þrektalan reiknast því of há.

Ef mæla á raunverulegt líkamsþrek er notað svonefnt beint hámarkspróf. Slíkt próf krefst mjög dýrra og flókinna tækja. Það fer oft fram í rannsóknastofu með lækni eða íþróttasjúkraþjálfara. Mælt er hæfi einstaklingsins til að flytja og taka upp súrefni með því að safna saman og greina loftið sem hann andar frá sér. Mesta súrefnisupptakan, mæld í lítrum af súrefni sem tekið er upp á mínútu, er nefnd hámarkssúrefnisupptaka (VO2max).

Hvernig finnst hámarkspúls?

Góð aðferð er að hita vel upp á hlaupabretti. Síðan er hraðinn og hallinn aukinn með hverri mínútu að örmögnun. Afar mikilvægt er að einstaklingurinn sé heill heilsu og þjáist ekki af hjarta- eða æðasjúkdómum. Að auki VERÐUR að vera annar á staðnum sem getur aðstoðað og ef til vill kann á hlaupabrettið þannig að sá sem er prófaður geti einbeitt sér að hlaupunum. Í staðinn fyrir að nota hlaupabretti getur þú hlaupið eins langt og þú kemst upp brekku. Hámarkspúlsinn er hæsta púlstala sem er skráð eftir að prófinu er lokið. Nota skal púlsmæli; það gefur bestan árangur.

Ef púlsmælir er ekki fyrir hendi skal taka púlsinn á úlnliðnum með vísifingri
og löngutöng í 10 sek. og margfalda með 6.
Það krefst nokkurrar æfingar, sérstaklega
þegar púlsinn er hár.

Hvernig er hvíldarpúls fundinn?

Púls er mældur í sitjandi stöðu áður en stigið er fram úr rúminu á morgnana. Það er hvíldarpúlsinn.

Á hverju þarf að hafa sérstakar gætur?

Uppfylla þarf eftirfarandi kröfur til að niðurstaða prófsins verði eins rétt og unnt er.

  • Reyna skal eins og framast er unnt að forðast líkamlega áreynslu daginn fyrir prófið.
  • Ekki skal borða síðar en þremur tímum fyrir prófið.
  • Ekki skal neyta tóbaks í 1 klst. fyrir prófið.
  • Ef viðkomandi er þreyttur, illa fyrirkallaður eða kvefaður skal hann ekki taka prófið
  • Finni viðkomandi fyrir verkjum í brjósti eða á mjög erfitt um andardrátt skal hann hætta prófinu tafarlaust.
  • Alltaf er gott að hafa annan á staðnum í prófinu.
  • Ef endurtaka á prófið síðar skal reyna svo sem unnt er að framkvæma prófið við sömu skilyrði með tilliti til hitastigs, tíma dags, búnaðar, klæðnaðar o.s.frv.
  • Gæta skal þess að mæla púlsinn rétt þar sem rangur púls leiðir til óvissu um niðurstöðurnar.

Góða skemmtun í prófinu!

Hlaupapróf Coopers