Aðalnámskrá framhaldsskóla – lífsleikni

Á vef Menntamálaráðuneytisins er að finna aðalnámskrá framhaldsskóla sem gefin er út í heftum. Almennur hluti námskrárinnar er birtur í einu hefti. Námskrár einstakra bóknámsgreina og námskrár í sérgreinum starfsnáms eru birtar í sérstökum heftum.

Í almennum hluta aðalnámskrár er meðal annars fjallað um hlutverk og markmið framhaldsskóla, uppbyggingu náms og námsleiðir, almenn inntökuskilyrði, skólanámskrá, réttindi og skyldur nemenda, námsmat og próf, sveinspróf og námssamninga, undanþágur og meðferð persónulegra upplýsinga og meðferð mála. Almennur hluti aðalnámskrár framhaldsskóla er birtur sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.

Í námskrám einstakra námsgreina og námskrám í sérgreinum starfsnáms er m.a. skilgreint markmið námsins, gefnar ábendingar um nám og kennslu, námsmat, áfangalýsingar svo og lýsingar á námsskipan þar sem við á.

Í Aðalnámskrá er að finna eftirfarandi texta:

Lífsleikni er ákveðin færni sem einstaklingar eru að tileinka sér ævina á enda. Alla ævi eru einstaklingar að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs í samræmi við aldur og þroska. Það er í þessari samræðu einstaklings við sjálfan sig og umhverfi sitt sem lífsleikni hans þroskast og dafnar. Námsgrein, sem kennir sig við lífsleikni, er því fyrst og fremst tækifæri fyrir nemandann og stuðningur við hann til að efla lífsleikni sína.

Lífsleikni á framhaldsskólastigi á að gefa nemandanum tóm til að dýpka skilning sinn á sjálfum sér og umhverfi sínu og styrkja hann í að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs. Lífsleiknin getur falið í sér námsþætti sem stuðla að því að gera nemendur hæfari til að lifa í lýðræðisþjóðfélagi og dýpka skilning þeirra á samfélaginu, s.s. sögulegum forsendum, atvinnuháttum, menningu og listum, náttúru og umhverfi, hagfræði og auðlindum jarðar, samskiptum, fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldum.

Aðalnámskrá framhaldsskóla – lífsleikni