Að skoða eigin fordóma

Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands.

Ég veit það
og þú veizt það,
og ég veit
að þú veizt
að ég veit
að þú veizt það,
samt látum við
eins og við
vitum það ekki.

Látalæti, Jón úr Vör

Það er svo merkilegt með okkur manneskjur, hvað við erum iðin við að setja upp grímur og byggja upp fordóma í samskiptum okkar. Ég veit að þú veist að ég er með fordóma, og ég veit hið sama um þig. Samt látum við sem við vitum það ekki.

Hið raunverulega verkefni lífsins er það að breytast. Lífið sjálft er hreyfing, framvinda. Þess vegna eru fordómar í mótsögn við lífið. Þegar við dæmum manneskjur fyrirfram erum við að missa af tækifærum til að læra eitthvað nýtt og draga ferskar ályktanir. Um leið erum við líka að skemma möguleika annarra til að skilgreina eigið líf og finna því farvegi.

Því er það eitt brýnasta verkefni hverrar manneskju að skoða eigin fordóma og kannast við þá. Þegar við tökum ákvörðun um að sleppa taki á tilteknum fordómum þá erum við að færa lífinu gjöf. Því fordómar gagnvart fólki eru ekki skaðlausar skoðanir. Þeir ræna fólk sérstöðu sinni og persónueinkennum og búa til í kringum það staðlaða ramma. Það er ekki hægt að ramma inn lifandi fólk. Enginn verður skilgreindur í eitt skipti fyrir öll.

Skoðum þá fordóma sem við berum. Horfum óttalaust í eigin barm og hættum þeim látalátum að þykjast ekki þekkja þröngsýnina í eigin sál. Þar verður vinnan að hefjast, því allur styrkur hefst í vanmætti. Sá einn sem horfist í augu við veikleika sína, getur gengið fram í styrkleika.