Að missa tönn eða tennur

Það telst hluti af eðlilegu þroskaferli barna að missa tönn. Börnin verða hreykin og upp með sér þegar fyrsta tönnin losnar og fellur og okkur finnst það jafnvel svolítið sætt að sjá börn á grunnskólaaldri með skörð í munni. Ekki er laust við að hugsanir okkar breytist með aldrinum, þ.e. þegar börnin stækka viljum við helst sjá fullorðinstennurnar fylla þessi skörð. Okkur finnst m.ö.o. ekkert sætt að sjá fullorðið fólk sem í vantar tönn eða tennur.
Slíkt getur þó hent besta fólk, jafnvel þótt viðkomandi sé manna duglegastur að bursta, nota tannþráð og allt annað sem góðri tannhirðu fylgir. Fólk getur lent í slysum sem valda því að tönn eða tennur tapist ða fengið sjúkdóma í munnhol sem erfitt getur reynst að ráða við án tanntaps.

Mikilvægi tanna

Tennur notum við fyrst og fremst til að tyggja með, en ekki má gleyma öðrum þáttum sem einnig eru mikilvægir. Tennur eru ómissandi í fallegu brosi, til að sýna eðlileg svipbrigði og stuðla að heilbrigðu útliti og góðri sjálfsímynd. Fallegar tennur geta haft mikil áhrif á lífsstíl og lífsgæði. Tannmissir er aldrei æskilegur, en misjafnt er eftir því hvaða tönn tapast, hversu mikið liggur á að setja aðra í hennar stað.
Margskonar lausnir hafa verið notaðar við að leysa vandamál af þessu tagi. Áratugum saman hafa menn smíðað svokallaðar brýr og parta, sem oft hafa dugað vel. Síðustu árin hafa vandamál af þessu tagi í síauknum mæli verið leyst með svokölluðum tannplöntum. Tannplantar eru nokkurs konar „gervirætur”, sem festar eru í kjálkabeinið þar sem áður var tönn. Notaðir eru stólpar úr hreinum títanmálmi og er þeim komið fyrir á sínum stað með skurðaðgerð hjá tannlækni. Líkamsvefir þola þetta efni mjög vel og engin ofnæmisviðbrögð hafa komið fram til þessa svo vitað sé.

Hvenær er hægt að nota tannplanta?

Tannplanta er hægt að nota til að fylla upp í bæði lítil og stór skörð í tanngarðinum svo fremi að tilteknum læknisfræðilegum og líffræðilegum skilyrðum sé fullnægt. Til dæmis þarf vexti að vera lokið, en í raun eru engin efri aldursmörk. Tannplantar eru einkum notaðir í eftirfarandi tilvikum:

1. Þegar eina staka tönn vantar: Þá er einum planta komið fyrir á milli aðliggjandi tanna. Postulínstönn er svo smíðuð á plantann.

2. Þegar nokkrar tennur vantar: Þá er nokkrum plöntum komið fyrir hlið við hlið og brú eða stakar krónur smíðaðar á. Í slíkum tilvikum er algengt að viðkomandi hafi áður verið með svokallaða parta, sem eru lausir gómar sem festast með krókum eða smellum á aðliggjandi tennur.

3. Þegar allar tennur vantar í öðrum eða báðum gómum: Þá er hægt að setja marga planta hlið við hlið. Smíðuð er brú og/eða stakar krónur á plantana.

4. Til að festa gervitennur þegar allar tennur vantar: Þá eru settir niður tveir eða fleiri plantar. Gerðar eru festingar sem t.d. gætu verið smellur sem festast svo upp í gervitennurnar. Á þennan hátt sitja tennurnar mun fastar en ella.

Hvernig er plantinn settur í?

Plantinn er í raun tilbúinn grunnur sem kemur í stað tannrótar. Með lítilli skurðaðgerð er plantanum komið fyrir í kjálkabeininu þar sem hann grær fastur. Eftirköst aðgerðarinnar líkjast að mörgu leyti þeim er fylgja venjulegum tanndrætti hvað varðar óþægindi og verki. Notuð er staðdeyfing rétt eins og við venjulegar tannviðgerðir. Að ísetningunni lokinni er skurðsárinu lokað og beinið í kringum plantann grær að honum. Sú græðsla tekur að meðaltali 3-6 mánuði. Að þeim tíma liðnum má festa á hann krónu, brú eða annars konar gervitennur.

Vandamál við notkun gervitanna

Mörgum gengur vel að nota gervitennurr. Þó er nokkuð stór hópur sem ekki er alveg ánægður. Vandamálin eru einkum tvíþætt:

Fyrst má nefna þegar tennurnar sitja ekki fastar. Það á einkum við um neðri góminn. Hitt vandamálið er erfiðara, en það varðar þá sem alls ekki þola gervitennurnar og þá fyrirferð sem þeim fylgir. Hafi þeir einstaklingar nægilegt kjálkabein er möguleiki að setja niður nokkra planta og smíða stakar tennur og/eða brýr á þá.

Hvernig geta tannplantar hjálpað fólki með gervitennur

<>

Tannplantar geta hjálpað mörgum sem þurfa að nota gervitennur. Það á sérstaklega við um þá sem þurfa að nota neðri góm. Tannlæknir þarf að leggja heildarmat á heilsu viðkomandi, skoða munn og röntgenmynda kjálkabeinið. Grunnforsendur meðferðar með tannplöntun eru fullnægjandi magn og gæði kjálkabeins, góð munnhirða og eðlilegur græðsluhæfileiki líkamans. & Aacute;ður en að ísetningu kemur þarf að meðhöndla þá sjúkdóma sem hugsanlega verður vart í munnholinu.
Þegar festa á gervitennur með hjálp tannplanta eru nokkrir möguleikar til í stöðunni. Það er einstaklingsbundið hvaða möguleiki hentar hverjum. Á myndinni hér til hliðar er ein lausnin sýnd, en þar er smíðaður barri (slá) á tvo planta og gómnum er svo smellt niður á festingarnar. Aðrir möguleikar eru einnig tiltækir og verður að ræða það við tannlækni hvað hentar best hverju sinni.

Nokkur orð um gervitannagerð

Aldrei verður of oft talað um vönduð vinnubrögð þegar kemur að gerð gervitanna í tannlausum munni. Eins og áður hefur verið nefnt er allur undirbúningur mikilvægur. Þar má nefna skoðun á slímhúð, mat á kjálkabeini, röntgenmyndatökur og fleira. Þótt munnhol virðist tannlaust og slímhúð heilbrigð geta leynst tannbrot, belgmein ýmis konar og fleira varhugavert í kjálkabeininu án þess að það sjáist á yfirborðinu. Einnig er mjög mikilvægt að meta kjálkabein með tilliti til tannplanta, en þeir eru bylting fyrir tannlausa einstaklinga. Þar er einnig nauðsynlegt að meta legu taugarinnar (n. mandibularis). Er það nú svo að stundum duga ekki þær röntgenmyndir sem teknar eru á tannlæknastofu, heldur er sjúklingi vísað í sneiðmyndatöku til að fá enn betri sýn.

Hvað er nauðsynlegt svo gervitennurnar fari vel?

Til að gervitennur fari vel er nauðsynlegt að taka gott mát af stæði tannanna. Máttaka fyrir gervitönnum er síður en svo einfalt mál. Raunar tel ég að máttakan sé mikilvægasta en jafnframt erfiðasta skrefið sem í gervitannasmíðinni er stigið. Máttaka fyrir gervitönnum fer í stórum dráttum fram á eftirfarandi hátt: Fyrst er tekið svokallað primert mát, eða fyrsta mát. Þá er verksmiðjuframleidd mátskeið fyllt af mátefni (kvoðu), sem gefur hæfilega mikið eftir. Eftir þessa máttöku er gifs steypt í mátið og látið harðna. Þá hefur myndast afsteypa sem sýnir grófa mynd af tannlausa svæðinu í sjúklingnum. Þá er sérsmíðuð mátskeið sem notuð er í seinni máttökuna. Mátskeiðin er aðeins notuð einu sinni, fyrir viðkomandi sjúkling. Þegar búið er að ganga úr skugga um að mátskeiðin passi eru brúnirnar mótaðar. Það er gert með ýmsum efnum, en algengast mun vera að nota svokallað compound. Kann ég ekki íslenskt orð yfir efni þetta og biðst ég afsökunar á því. Efni þetta er hitað og lagt á mátskeiðina. Mátskeiðin er því næst sett í munn og sjúklingur beðinn um að gera ákveðnar hreyfingar. Þannig fæst mjög nákvæm eftirmynd hvers vöðvahóps fyrir sig. Aðeins er sett lítið í einu á afmörkuðu svæði. Það ákvarðast m.a.af vöðvum munnholsins og er gert eftir fyrirfram ákveðnum reglum. Sem dæmi má nefna að móta þarf sérstaklega svæði vegna vararhafts. Sé það ekki gert munu gervitennurnar alltaf hreyfast með vararhaftinu. Þannig er hvert svæðið tekið fyrir og brúnirnar mótaðar þannig að nýju tennurnar sitji sem best og hreyfist sem minnst. Þegar búið er að móta allar brúnir gómsins er að lokum tekið mát í mátskeiðina með mátefni sem er mun nákvæmara en það sem notað er í fyrri máttökunni. Gómurinn er svo smíðaður á afsteypuna sem búin er til eftir því máti. Sé máttakan ekki gerð á þennan hátt fara gervitennurnar ekki vel. Gervitennur, sem ekki eru smíðaðar samkvæmt þessari forskrift, hreyfast og veltast í hvert sinn sem viðkomandi gerir minnstu hreyfingu með vöðvum munnhols.

Þarf ég að fara til tannlæknis ef ég er með gervitennur?

Það er mikilvægt að fara til tannlæknis reglulega. Stoðvefir, s.s. kjálkabein og tyggingarvöðvar, taka stöðugum breytingum og til þess að gervitennurnar passi vel, getur þurft að fóðra þær eða endurnýja með reglulegu millibili. Eftirlit hjá tannlækni felur í sér fleira en það eitt að skoða tennurnar. Tannlæknirinn athugar hvort slímhúð og stoðvefir séu heilbrigðir. Krabbamein á höfuð- og hálssvæði er mun algengara hjá eldra fólki og þeim sem reykja. Segðu tannlækninum þínum strax frá því ef þú finnur sár, bólgu eða litabreytingar í munnholi eða hálsi. Því fyrr sem mein finnst, því meiri verða lífslíkur sjúklingsins. Auk krabbameins verður fjölda annarra sjúkdóma fyrst vart í munnholi.

Nokkur ráð fyrir þá sem eru með gervitennur

  • Gott er að hvíla undirlagið með því að sofa ekki með gervitennurnar, þegar mögulegt er.
  • Tennurnar á að taka úr munninum og bursta vel með fljótandi sápu. Ekki má nota tannkrem, því það getur rispað plastefnið í gervitönnunum.
  • Gott ráð er að fylla vaskinn af vatni eða setja handklæði undir áður en tennurnar eru burstaðar. Þannig er síður hætta á að þær brotni ef þær detta.
  • Gervitennur á að geyma í köldu vatni. Þær eyðileggjast í of miklum hita og þurrki.

Helstu heimildir:

Straumann-kynningarbæklingur

Tannheilsa aldraðra eftir Helgu Ágústsdóttur, tannlækni

HeimasíðaTannlæknafélagsins (www.tannsi.is)