Að hreyfa sig og hjúfra

Á Íslandi er vor í lofti og sumar í vændum. Litróf náttúrunnar breytist smám saman úr gráu í grænt. Vestur í Dýrafirði heyra menn hrossagaukinn hneggja, fyrir norðan er flórgoðinn tekinn að hreiðra sig, og lóan syngur dirrindí fyrir landsmenn alla.

Bernskuvorin mín hófust með Mývatnssveitarferð. Amma á Grænavatni átti afmæli um krossmessuleytið, og við gerðum allt, sem í okkar valdi stóð, til að komast á gamla jeppanum hans pabba yfir forarsvað og pytti upp yfir heiðar og ofan í Sveit. Þarna stendur hún á hlaðinu, lágvaxin kona með langa fléttu. Hún er á grænum kjól með rauðum og hvítum blómum, lófinn hrjúfur og höndin sinaber. „Ja hérna, eruð þið komnir angarnar mínir.“ Pabbi fær innilegt faðmlag, eftirmyndin, snar í snúningum og snöggur upp á lagið. „Var heiðin ekki eintómt svað?“

Amma var einstæð. Í huga mínum veiddi hún úr vatninu allt árið um kring; reri hljóðlega á kyrrum sumarkvöldum, og lagði netin undir ís á köldum vetrardögum. Hún dró þau berhent og greiddi úr flækjunum niðri í vatninum, því annars frysi allt í einn heljarklump . Þegar við komum í heimsókn, dró hún okkur með sér bak við búrdyrnar og gaf okkur heimabruggað fíflavín úr stórri matskeið. „Börn þurfa að læra að umgangast áfenga drykki“, sagði hún, „og kynnast beiskleika vínsins strax í bernsku. Snuðin tek ég hins vegar af ykkur undireins og fleygi í ruslið, því túttutott leiðir ykkur beint á sígarrettuna.“

Amma spannaði allt litrófið í heilsteyptri mynd. Hún var kvik og skörp, mild og meðvituð. Og til að kóróna meistaraverkið var hún ákafur aðdáandi Manchester United og vissi allt, sem vert var að vita um hetjurnar í bresku iðnaðarstórborginni. Um það vitnar yfirlýsing eldri sonar okkar undir borðum fyrir u.þ.b. tuttugu árum, eftir miklar vangaveltur þriggja ára barns: „Ég held með Manchester eins og langamma, því þeir dóu einu sinni allir í flugslysi.“

Nú heldur lesandinn, sem leitar vísinda og vitneskju, að ég hafi villst af leið, og hann hefur nokkuð til síns máls. Amma mín og þingeysku heiðarnar eru nefnilega alls ekki í þjóðbraut, en þær toga hins vegar inn í víddirnar þar sem skynjunin ein ræður ríkjum.

Bókin, Að hreyfa sig og hjúfra, sem kemur út þessa dagana hjá Ásútgáfunni á Akureyri, er um skynjun okkar allra og þjóðveginn eða hraðbrautina, sem við flest kjósum að fara. Hún er um leiðina, sem barnið velur óafvitandi til vaxtar og þroska, og um það hvernig við sækjum á brattann og þreifum fyrir okkur til að ná áttum og lifa í samhljómi við líðandi stund.

Bókin fjallar um hraðferð og hraðbraut, en þó fyrst og fremst um börnin við vegbrúnina. Þar vaxa sóleyjar, og þar vaxa grös, og því margt sem hrífur hugann. Þar staldra þau við, meðan hin þjóta áfram malbikið og hverfa sýnum.

Fyrir rúmum áratug fékk ég fast starf sem sjúkraþjálfari í færeyska skólakerfinu. Ég átti fyrst og fremst von á að sinna hreyfifötluðum börnum, börnum með alvarlega, en afmarkaða og skilgreinda fötlun. Þetta varð og raunin, en aðeins að nokkru leyti. Smám saman lengdist biðlisti þeirra barna, sem ekki höfðu fengið neina greiningu og alls ekki sjáanlega fötlun. Þetta voru og eru börn, sem eru líkamlega lingerð og þunglamaleg. Þau hafa veikt sjálfsálit, eru viðkvæm, og eiga erfitt með að einbeita sér; að öðru leyti ósköp venjuleg börn, greind og vel að sér, en eiga engu að síður erfitt uppdráttar í leik og starfi. Þau hafa fyllt huga minn – bæði sem einstaklingar og heild – jafnvel svo útaf flóði, og ég varð að grípa í taumana, opna eigin flóðgáttir og segja frá.

Í bókinni, Að hreyfa sig og hjúfar, kalla ég þessi börn skynreiðubörn. Á alþjóðafagmáli er oft notað orðið „sanseintegrationsbörn“, en ég hef valið mér hugtakið reiða, andstæðu óreiðu. Þetta eru börn sem eiga bágt með að vinna úr þeirri fjölbreytilegu reynslu, sem við í sífellu og látlaust verðum fyrir, þannig að úr verði skipulögð heild. Ekki eru þau einsdæmi, því tíðnin er há, og ekki færri en eitt til tvö börn í hverri bekkjardeild og hverri leikskólastofu eiga í þessum örðugleikum.

Hvernig er það þá að vera skynreiðubarn? Flest okkar skynja með öllum líkamanum og greina fjölbreytt áreiti sem heildaráhrif. Við skynjum umhverfið og okkur sjálf; liðamót, vöðva, kraft og spennu, finnum fyrir fötunum, heyrum þyt vindsins og sjáum ljósgeisla leika á gluggum; skiljum þetta allt saman sem andrá og eina mynd, en getum jafnframt síað obbann af boðunum frá og einbeitt okkur að því, sem er megininntak hverrar stundar. Þessi síun og úrvinnsla gerir okkur kleift að bregðast við umhverfinu á viðhlítandi hátt, og þetta er í raun og veru kjarni sjálfrar skynreiðunnar. Okkur tekst nefnilega yfirleitt að einbeita okkur, og eins þótt sokkarnar séu aðeins að síga niður leggina, okkur klæi í hársvörðinn eða nærbuxurnar þrengi að. Skynreiðubarnið er hins vegar fangið af þessu öllu samtímis, og augnablikið líður hjá í eins konar óreiðu – hugurinn dreifist í allar áttir. Þetta barn á fyrst og fremst erfitt með að sía léttvæg boð frá mikilvægum, og þrátt fyrir góða hæfileika ganga verkefnin því hægt og stirðlega o g félagsleg samskipti og samvera verða erfið.

Orsakir skynreiðuörðugleika eru allajafna einfaldar og skýrar, en standa engu að síður djúpt. Það þarf að skyggnast undir yfirborðið og leita aftur til meðgöngu og frumbernsku. Yfirleitt hafa þessi börn notið of mikillar værðar í fósturlífi og lítið reynt á sig fyrstu mánuði tilverunnar, og því alltof fá þyngdar- og snertiboð borist þeim.

Sjálft þyngdarskynfærið er í innra eyranu. Þaðan berast okkkur boð um það hvernig við sem massi eða þyngdareining snúum, hvort við skiptum um stellingu, og hvort við erum kyrr eða á hreyfingu miðað við umhverfið. Með þessu móti öðlumst við smátt og smátt ómeðvitaða tilfinningu fyrir áttum, vídd, rúmi og tíma. Eitt af sérkennum þyngdarskynsins er að það þroskast mjög snemma og byrjar að eflast þegar á áttundu viku meðgöngu. Annað sérkenni er það, að boðin berast einungis til mænukylfunnar en ekki stórheilans eins og önnur skynboð. Afleiðingin er sú, að við finnum ekki fyrir þyngdaráreiti og gerum okkur alls ekki grein fyrir að við búum yfir nokkurri þyngdarreynslu.

Í móðurlífi erum við nær stanslaust á ferð og flugi í takt við hreyfingar móðurinnar. Kornabarnið, sem náð hefur eðlilegum þyngdarþroska á þennan hátt, leitar ósjálfrátt áframhaldandi áreitis og hefur bæði löngun og þor til að reyna rúm og hraða með eigin þyngd. Það vill helst að því sé vaggað og biður okkur orðalaust um dans og hreyfingu í fangi okkar. Síðar meir sækir barnið í þessi áreiti á eigin spýtur; togar sig upp á við, dettur aftur og aftur, snýr sér, veltir sér og skríður. Fyrsta árið er því stanslaus leit að þyngdarreynslu, boðum um eigin hreyfingu í umhverfinu. Þannig aðlögum við okkur rúmi og tíma og þroskum jafnframt mikilvæga heilastöð, sem gerir okkur kleift að henda reiður á aragrúa annarra áreita.

Jafnframt því sem þyngdarskynið þroskast verður húðin fyrir áreiti. Legvatnið nýr okkur, fast og afdráttarlaust, meðan við sveiflumst til í móðurkvið, og þannig öðlumst við snertikennd og snertiímynd, sem við notum áfram við að kanna heiminn. Við aðstoðum barnið í þessu, einkum fyrstu mánuðina, strjúkum því og klöppum, og það nýtur þess að hjúfra sig í fangi okkar. Barnið fer síðan sjálft að snerta og handfjatla í síauknum mæli og notar fyrsta ár ævinnar ekki einungis til að flytja sig aftur og fram, upp og niður, heldur sækir einnig eftir sem mestu snertiáreiti; er handótt, skoðar og skoðar og stingur nær öllu uppí sig til að rannsaka nánar eðli hlutanna. Þessi frumáreiti eru nauðsynleg í mjög miklum mæli, því ella náum við ekki jafnvægi milli þess að geta „hugsað“ og greint með húðinni annars vegar, og hins vegar þess frumeðlisþáttar er gerir að verkum, að við bregðumst við áreiti með harkalegri vörn eða árás. Börn, sem hafa notið of lítils snertiáreitis, verða því hvumpin og bregðast annaðhvort harkalega við umhverfi sínu eða draga sig í skel sína og forðast félagsleg og líkamleg samskipti.

Skynreiðubörnin hafa flest átt of væra fósturtilveru og fæðast reynslusnauð á þessum tveimur skynsviðum, snertiskynsviði og þyngdarskynsviði. Í stað þess að hraða för sinni eftir fæðingu og reyna að vinna upp það, sem þau hafa farið á mis við, fara þau sér hægt og verjast áframhaldandi áreiti. Þau eru máttfarin og deyfðarleg, svefnug, og vilja helst fá að liggja í friði eða sitja í ró og næði. Að auki eru þau snertifælin, endurgjalda ekki atlot okkar nógu vel eða áreynslulaust, þora ekki að mæta faðminum, höndunum, brjóstinu, baðvatninu, handklæðinu. Yfirleitt eru þessi börn sérlega stillt og þæg allt fyrsta árið. Alger draumur, segja þeir fullorðnu. Þau þroskast stig af stigi og innan eðlilegra marka, því að ekkert amar í raun og veru að heilabúi eða líkama, en þau hlaupa yfir meginhluta reynslutímabilsins og láta t.d. eiga sig að velta sér, tosa sig upp og pompa æ ofan í æ.

Þegar þessi börn fara að ganga breytast þau oftast. Þau geta nú borið sig um, en skortir nákvæma tilfinningu fyrir umhverfi og rými svo að þau reka sig á, stefna sér í voða og eru yfirleitt of tillitslaus í öllum tiltektum. Hreyfingarnar eru klunnalegar og harkalegar, og þau þarfnast meiri aðgæslu og aðstoðar en jafnaldrarnir. Síðar meir verður ljóst að félagsleg samskipti ganga ekki jafn mildilega og greitt sem skyldi. Barnið þolir illa hávaða, ærsl og snertingu, og leikir fara út um þúfur vegna einhvers klunnaskapar. Sum þessara barna verða ofvirk og ofsafengin, önnur draga sig í hlé og kjósa sér fámenni og frið. Í báðum tilvikum eru þetta börn, sem líður illa og einangrast frá kátum hópi leikfélaga.

Þegar skólaganga hefst verður vandamálið enn augljósara. Skortur á rýmiskennd gerir það, að erfitt er að greina á milli b og d eða 49 og 94, svo bæði lestur og stærðfræði vaxa í augum. Erfiðastir eru samt leikfimitímarnir, ærslin, hamagangurinn, súgurinn, hraðinn – þetta veldur magaverk og næst gleymist leikfimibúningurinn heima. Örðugleikar barnsins verða einnig afar augljósir í frímínútunum, annað hvort vegna harkalegs atferlis og slagsmála eða – og það er algengara – að barnið hverfur inn í eigin skel og haldur sig utan hópsins.

Skynreiða er vítt hugtak og ég hef hér aðeins nefnt einstaka þætti hennar, en bendi þeim, sem áhuga hafa á efninu á að lesa „Að hreyfa sig og hj&uacu te;fra“. Þetta svið er sérlega athyglisvert, því unnt er að veita börnum þjálfun, sem í mörgum tilvikum skilar afgerandi árangri, þannig að hægt sé að njóta líðandi stundar á þann hátt sem vænst var.

Í bókinni reyni ég að byggja upp skilning á barninu miðað við venjulegan þroskaferil okkar allra, en fyrst og fremst útskýra einkenni skynreiðubarna, og hvernig hægt sé að skoða þau nánar og haga þjálfun. Ég lít svo á að skynreiðumeðferð eigi að vera fjölfaglegt samstarf margra aðila: skóla, heimila, leikskóla, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, og ef til vill sálfræðinga. Ég lýsi einstökum æfingartækjum og skoðunargögnum, en einnig, og ekki síður, hvernig leikfimi- og íþróttakennsla í skólum geti og eigi að koma til móts við þarfir þessara barna, sem búa um allt land, jafnt á annesjum og afdölum sem í þéttbýli.

Í bókinni er stuðst við rannsóknir og niðurstöður erlendra fræðimanna, en undirrót sjálfs textans er skoðun og meðferð u.þ.b. 250 færeyskra barna, sem ég hef fylgst með síðastliðinn áratug. Í tengslum við það hef ég kynnst náið eyjunum átján og haldið fjölda fyrirlestra, bæði í skólum, á dagheimilum, meðal foreldra og á heilbrigðisstofnunum. Þeir sem á hafa hlýtt hafa talið í mig kjark og hvatt mig til dáða, og án áhuga þeirra og dugnaðar hefði ég aldrei lagt í jafn stórt verkefni. Erfiðast reyndist mér að setja punkt, – þegar skynreiðubörnin fylla hugann hverfa öll endimörk. Sérhvert barn lýkst upp eins og smáblóm, og því lengri sem samfylgdin er því erfiðara er að slíta slíta sig lausa og setja lokapunktinn. Þú hefur breytst með barninu, og það býr innra með þér í erli daganna.

Þegar þú samt sem áður ákveður að nú sé nóg komið, staldrar þú við, lítur um öxl, undrast, gleðst og fyllist von. Þú hefur snert við einhverju sem ristir djúpt; jafnvel dýpra en þú bjóst við og gast valdið. Einmitt þessi dýpt gerir barnaþjálfun ómótstæðilega, spennandi og í raun óumræðilega. Þegar ég horfi til baka, hef ég engu að síður aldrei tekist á við jafn hlutlægt verkefni í sjúkraþjálfun, hlutlægt í þeim skilningi, að faglega er hægt að finna ástæður og einkenni, skoða, túlka, örva, og gera sér líka nokkurn veginn grein fyrir framvindunni.

Íslenska útgáfan, Að hreyfa sig og hjúfra, er þýdd úr færeysku af rithöfundanum sjálfum. Hún er 197 blaðsíður og heitir á frummálinu: Rura – rørsluskipan og sansamenning hjá føroyskum børnum. Hún kom út fyrir tveimur árum hjá Føroya Skúlabókagrunni, og nú er unnið að útgáfu danskrar þýðingar. Þroskahjálp á Norðurlandi eystra og Norræni Þýðingasjóðurinn styrkja íslensku útgáfuna.

Þórshöfn í Færeyjum á krossmessu 2001