Að hætta á hormónameðferð vegna tíðahvarfa

Tugþúsundir kvenna hér á landi taka hormónalyf vegna tíðahvarfa (1). Ætla má að stór hluti þeirra taki lyfin vegna einkenna sem fylgja þessu aldursskeiði, en margar hafa eflaust byrjað meðferð í forvarnarskyni þar eð talið var að hormónin gætu verndað konur gegn hjarta- og æðasjúkdómum auk þess að koma í veg fyrir beinþynningu síðar meir.

Eins og fram hefur komið í fréttum og í Morgunblaðinu (2) nýverið hafa nýjustu rannsóknir sýnt að samsett hormónameðferð vegna tíðahvarfa getur gert meiri skaða en gagn sem fyrsta stigs heilsuvernd. Það er því full ástæða til að heimilislæknar endurmeti ábendingar fyrir hormónameðferð við tíðahvörf og upplýsi konur um kosti og galla þessarar meðferðar. Einnig er mikilvægt að að konur geti tekið sjálfstæða ákvörðun um það hvort þær vilji fara á þessa meðferð eða ekki. Þær konur sem eru þegar á meðferð geta einnig endurmetið nauðsyn meðferðarinnar. Margar konur kvarta hins vegar undan því að enda þótt þær hafi í upphafi haft lítil sem engin einkenni tíðahvarfa svo sem hita- og svitakóf þegar þær byrjuðu á lyfjameðferð hafi þær fengið alls kyns fráhvarfseinkenni þegar þær reyna nú að hætta hormónameðferð eftir langvarandi notkun þeirra og una því illa þessum valkosti. Margar konur hafa einnig farið á hormónameðferð eftir brottnám legs og eða eggjastokka. Margar þeirra hafa staðið í þeirri trú að þær þyrftu að taka hormón ævilangt.

Til þess að auðvelda konum sem það vilja, að hætta á hormónameðferð vegna breytingaskeiðsins, hafa verið samdar leiðbeiningar fyrir heimilislækna og konur almennt um það hvernig notkun verður best hætt án þess að það valdi of miklum fráhvarfseinkennum (3). Efnislega er hluti þessara leiðbeininga á þessa leið:

· Ráðlagt er að draga úr hormónameðferðinni hægt og sígandi á 6 til 12 vikum. Sumar konur geta þó þurft lengri tíma. Væg hita-og svitakóf geta gert vart við sig á tímanum en hverfa fljótlega.

Töflumeðferð

· Fyrstu 3 vikurnar er reynt að minnka hormónamagnið, t.d. með því að fá vægari hormónatöflur hjá lækni, eða að skipta hverri töflu í tvennt (í sumum töflutegundum er skora sem hentar vel til þess að kljúfa töflurnar).

· Næstu vikur þar á eftir má taka töflur annan hvern dag, þar á eftir töflumeðferð í einn dag og hafa síðan tvo daga án töflu o.s.frv. þar til meðferð er hætt.

Plástrar

· Fyrir þær sem nota hórmónaplástra er hægt að minnka hormónamagnið sem fer inn í líkamann með því að klippa ræmu af plástrinum, t.d. 1/4 fyrstu 2-4 vikunar, ½ næstu vikur þar á eftir o.s.frv.

· Í sumum tilvikum geta konur skipt töflum yfir í plástra til að minnka skammtana.

Meðferð vegna brottnáms legs og eða eggjastokka

Enn sem komið er skortir vísindalega þekkingu á lengd hormónameðferðar eftir skurðaðgerðir eða snemmbær tíðahvörf af öðrum ástæðum. Líklegt er talið að hormónameðferð gagnist þessum konum til fimmtugs. Eftir þann tíma geta þá ofannefndar leiðbeiningar komið að gagni.

Staðbundin östrogenmeðferð

Athygli er vakin á því að staðbundin östrógenmeðferð í leggöng (í formi krems eða hrings, sem komið er fyrir í leggöngum) er árangursrík til þess að koma í veg fyrir þurrk í slímhúð og til að hindra endurteknar þvagfærasýkingar. Slík meðferð í hæfilegum skömmtum er talin örugg við langtímanotkun.

Heimildir

1. Hormónameðferð kvenna. Eggert Sigfússon. Læknablaðið 2002;88:861.

2. Kristín Gunnarsdóttir, Konur á krossgötum. Morgunblaðið (Blað B) 8. nóvember 2002.

3. New Zealand Guidelines Group. Guideline Update. Hormone Replacement Therapy. Guidance for practitioners and women. http://www.nzgg.org.nz/library/gl_complete/gynae_hrt/index.cfm

 

Morgunblaðið 23 nóv. 2002 bls. 54.