1717 – Hjálparsími Rauða krossins

Hjálparsími Rauða krossins 1717

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er landsverkefni allra deilda Rauða krossins. Hann sinnir því hlutverki að vera til staðar fyrir alla þá sem þurfa að ræða sín hjartans mál í trúnaði og einlægni við hlutlausan aðila. Starfsmenn og sjálfboðaliðar Hjálparsímans leggja mikið upp úr því hlutverki að veita upplýsingar um samfélagsleg úrræði og þjónustu til einstaklinga sem þurfa frekari aðstoð við sínum vandamálum. Hjálparsíminn veitir einnig upplýsingar um þjónustu og aðstoð einstakra deilda Rauða krossins. Einkunnarorð 1717 eru hlutleysi, skilningur, nafnleysi og trúnaður. Síminn er opinn allan sólahringinn allan ársins hring og það birtist ekki á símareikningnum að hringt hafi verið í 1717. Öll símafyrirtæki á Íslandi fella niður gjöld notenda sinna þegar hringt er í 1717 sem þýðir að þetta er gjaldfrjálst númer.

Hjálparsíminn er í samstarfi við Landlæknisembættið, bráðamóttöku geðsviðs LSH og Neyðarlínuna. Hjálparsíminn er einnig félagi í alþjóðlegu hjálparlínu samtökunum CHI Helpline international sem yfir hundrað lönd eru aðilar að.

Þar sem um sólarhringsopnun er að ræða þarf stóran hóp af fólki til annast símsvörunina. Um 100 sjálfboðaliðar starfa hjá Hjálparsímanum sem sjá alfarið um vaktir á virkum dögum frá 16:00 – 23:00 og um helgar frá 9:00-23:00. Við verkefnið starfa fjórir starfsmenn í fullu starfi; verkefnisstjóri sem sér um daglegan rekstur verkefnisins, umsjónarmaður sjálfboðaliða sem sér um að allar vaktir sjálfboðaliða séu vel mannaðar og er trúnaðarmaður sjálfboðaliða, tveir næturstarfsmenn sem svara símtölum á nóttunni og starfsmaður í hálfu starfi sem sinnir símsvörun á dagtíma. Allir sem starfa við 1717 eiga það sameiginlegt að vilja sýna náungakærleika og vera til staðar fyrir þá sem þurfa á einhverjum að halda til að ræða við.

Allir sjálfboðaliðar og starfsmenn sem svara í Hjálparsímann sitja helgarnámskeið 1717 (10 klst.) og námskeið í sálrænni skyndihjálp (8 klst.). Á helgarnámskeiðinu er farið yfir grundvallarmarkmið Rauða krossins, almennar verklagsreglur Hjálparsímans, trúnað og þagnarskyldu sjálfboðaliða, notkun rafrænnar handbókar, viðtalstækni (sjálfsvígssímtöl, þunglyndi, kvíði, geðraskanir) og neyðarvarnir. Þegar sjálfboðaliðar hafa lokið þessum námskeiðum eru þeir boðaðir í þjálfun í símsvörun hjá verkefnisstjóra eða umsjónarmanni sjálfboðaliða. Í upphafi þjálfunnar er farið sérstaklega vel yfir viðbrögð við sjálfsvígssímtölum. Auk þessara námskeiða og þjálfunar fá sjálfboðaliðar handleiðslu einu sinni í mánuði hjá sálfræðingi og reglulega fræðslu um málefni er tengjast Hjálparsímanum.

Saga Hjálparsímans

Árið 2002 var farið í undirbúningsvinnu um að stofna hjálparlínu sem myndi hafa forvarnir gegn sjálfsvígum sem eitt af markmiðum sínum. Ákveðið var að Rauði kross Íslands myndi taka að sér verkefnið og setja á laggirnar Hjálparsíma Rauða krossins með símanúmerið 1717.

Rauði krossinn undirritaði samstarfssamning 26. nóvember 2002 við Landlæknisembættið, Landspítala Háskólasjúkrahús og Neyðarlínuna 112. Í samningnum var meðal annars kveðið á um að 1717 skyldi veita ráðgjöf og hlustun til fólks á öllum aldri sem þyrfti á stuðningi að halda.

Þann 1. mars 2004 samdi Rauði Kross Íslands við Reykjavíkurdeild Rauða krossins um að deildin myndi sjá um daglegan rekstur Hjálparsímans. Ákveðið var að hlutverk Hjálparsímans yrði fyrst og fremst að veita virka hlustun og vísa fólki til fagaðila þegar við ætti, þ.e. veita upplýsingar um samfélagsleg úrræði og þjónustu.

Strax í upphafi var lagður mikill metnaður í að þeir sem svöruðu símanum hefðu góða innsýn í vanda þeirra sem hringdu. Því var sett skilyrði um að allir þeir sem myndu svara 1717 færu á námskeið í sálrænni skyndihjálp, viðtalstækni, sjálfsvígsforvörnum og fengju fræðslu um geðræna sjúkdóma. Einnig var ákveðið að bjóða sjálfboðaliðum upp á reglulega fræðslu um sértæk vandamál.

Þess er vert að geta að Hjálparsíminn var stofnaður á grunni annarra hjálparlína – Trúnaðarsíma og Vinalínu Rauða krossins. Trúnaðarsíminn, með númerið 800-5151, var stofnaður 1987 fyrir börn og unglinga. Sá sími var opinn allan sólahringinn. Vinalína Rauða krossins hafði verið starfrækt frá byrjun árs 1992 fyrir einmana fólk 18 ára og eldra sem vantaði vin að tala við. Vinalínan, með númerið 561-6464 og græna númerið 800-6464, var aðeins opin á kvöldin frá kl. 20:00 – 23:00.

Hvorug þessara hjálparlína tóku sérstaklega á móti sjálfsvígssímtölum en þörfin var til staðar og því var farið í þá vinnu 2002 að stofna hjálparlínu sem myndi mæta þeirri þörf. Þegar Hjálparsími Rauða krossins var stofnaður lagðist Trúnaðarsíminn af en símtöl í hann voru áframsend til 1717. Vinalínan var fyrst í stað starfrækt samhliða Hjálparsímanum en sameinaðist honum 1. október 2004.

Til þess að faglegur rekstur Hjálparsímans yrði tryggður var skipuð verkefnastjórn yfir verkefninu sem fundar mánaðarlega. Verkefnastjórn er skipuð fimm fulltrúum og tveimur til vara auk áheyrn arfulltrúa frá Landlækni (sem hefur málfrelsi og tillögurétt). Reykavíkurdeild Rauða krossins tilnefnir þrjá fulltrúa og einn til vara, Landlæknir tilnefnir áheyrnarfulltrúa og stjórn Rauða kross Íslands tilnefnir tvo fulltrúa og einn til vara.

Nánari upplýsingar um Hjálparsímann og aðra starfssemi Rauða kross Íslands er að finna á heimasíðu Rauða krossins www.redcross.is