Virkni collagens krems

Er sambærileg virkni sem næst með því að bera á andlitið collagen krem og að taka inn collagen töflur eða duft?

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina.

Virkni collagens sem fæðubót er umdeild og vilja margir læknar og sérfræðingar meina að þetta sé „nútíma snákaolíusvikastarfsemi“.

Engar upplýsingar eru til um hvort virknin sé meiri/betri sé krem borið á húð eða töflur/duft tekið inn. Upplifunin er eflaust mismunandi eftir einstaklingum og misjafnt með hverju söluaðilar mæla með.

En almennt er talað um að góð næring skili sér úr meltingarvegi út í gegnum húðina og myndi ég því halda að heildarvirkni, ef einhver sé, af collageni sé betri sé tekið inn töflur eða duft.

með kveðju,

Lára Kristín Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.