Viðkvæm spurning

Heil og sæl.
Nú langar mig að fá ígrundað svar, ekki bara opinberlega samþykkt til að mega birtast.

Þannig er að ég er kona komin hátt á sextugsaldur. Ég var mjög passivt barn en varð að afar kröftugri verkmanneskju á fullorðinsárum, líklega af því ég þurfti að vera það.
Á þrítugsaldri þurfti ég að leita læknis vegna andlegrar vanlíðunar og hef verið á þunglyndislyfjum undan og ofan af síðustu áratugum sem og kvíðastillandi. Ég veit ekkert hvort þau lyf skipta mig máli. Ég bara tek þau til vonar og vara en er endalaust þreytt og orkulaus. Hef núna verið það árum saman.

Um daginn var gaukað að mér þrem töflum af ritalin Uno 30 mg og ég prófaði fyrst eina. Dagurinn varð frábær. Ég náði að einbeita mér að verkum í vinnunni og afkasta því líka að laga til og sinna þvotti og svona heima. Gerði það með gleði en síðustu ár hefur það allt verið kvöl og pína.
Ég var ekki alveg tilbúin að kaupa að þetta væri ekki bara ímyndun og nokkrum dögum seinna tók ég töflu númer tvö.
Það sama gerðist. Ég var skyndilega almennileg verkmanneskja og náði að afkasta því sem manneskja þarf að afkasta.

Nú spyr ég. Ætti ég að ræða við lækni um þetta augliti til auglitis og gæti verið að ég gæti losnað við Wellbutrinið og Tafilið í staðinn eða mun læknir segja að ég sé að leita eftir dópi?

Ég er svo logandi hrædd við lækna og að tala um sjálfa mig svona að mig vantar ráðgjöf.

Hvað segir þesi ráðgjafarþjónusta.
Með bestu kveðju.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þessi mál eru best tekin upp með þínum heimilislækni. Ég ráðlegg þér eindregið að ræða við hann og lýsa einkennum og upplifun þinni eins og þú lýsir hér. Læknirinn er bundinn trúnaði við þig og á að geta veitt þér góða ráðgjöf. Það er farsælast að einn aðili haldi utan um og hafi yfirsýn yfir þau lyf sem þú tekur. Ritalin er lyf sem eykur athygli, einbeitingu og afköst. Það getur einnig aukið sjálfstraust,minnkað þreytutilfinningu og eykur oft vellíðan. Lyfið er oftast notað hjá börnum en stundum  hjá fullorðnum. Ritalin á aldrei að taka nema eftir ráðleggingum læknis enda fylgja ritalin nokkrar aukaverkanir sem geta verið hættulegar og eins þarf að athuga hugsanlegar milliverkun við önnur lyf sem einstaklingurinn tekur

 

Gangi þér vel