Verkur í úlnlið og fram í fingur

Komið þið sæl,

Í mars síðastliðinn fór ég á mjög erfiða crossfit æfingu eftir að hafa verið í frá æfingum í 10 daga sökum flutninga erlendis. Æfingin gekk ágætlega en ég tók eftir því í lok æfingarinnar var ég alveg búinn á því (meira en vanalega) Ég var nokkuð viss um að það væri bara útaf því að ég var ekki búinn að æfa í rúma viku en ágætt að taka það fram að ég hef stundað sportið af kappi í rúmt ár án þess að meiðast alvarlega. Á æfingunni voru allskyns æfingar uppáskrifaðar: Jafnhending, róður, „wallballs“ og „toes2bar“ meðal annars. Ég fór heim eftir æfingu og allt var í góðu.
Hinsvegar, kvöldið eftir æfinguna fór ég að finna fyrir verk í hægri hönd. Þá, fyrir tæpum 4 vikum síðan, fannst mér eins og verkurinn leiddi úr hægra herðablaðinu og fram í framhandlegg og aðeins niður í þumal. Verkurinn var svo mikill að ég vaknaði við hann á nóttunni, en svo lagaðist hann aðeins yfir daginn, og svo vaknaði ég aftur næstu nótt. Svona gekk þetta í nokkra daga. Verkurinn hefur síðan horfið úr herðablaði og framhandlegg en færst niður í úlnlið og var þar í nokkra daga. Eftir það færðist hann alveg fram í þumal og nú síðast fram í vísifingur.
Á tímabili fannst mér eins og verkurinn væri að minnka. En undanfarna daga finnst mér eins og hann sé að færast í aukana aftur. Þá í úlnlið, þumli og vísifingri. Vaknaði meðal annars í nótt sökum verkja. Gott að taka það fram að ég hef hvílt æfingar algjörlega meðan ég hef verið svona, fyrir utan einstaka „hike“. Ekkert sem hefur reynt á hendurnar (annað en að flytja tveimur vikum eftir að verkurinn byrjaði, fannst það þó ekki hafa nein sérstök áhrif á verkinn)
Verkurinn er nokkuð jafn yfir daginn en er þó sérstaklega slæmur ef ég set pressu á lófann. Þ.e. legg hann á borð og set þungan yfir eða fer í armbeygjustöðu. Einhverra hluta vegna virðist hann alltaf vera meiri á nóttunni.
Ég hef ekki mikið gert til að reyna að laga verkinn annað en það að hvíla hendina og taka nokkrar íbúfen þegar verkurinn var sem mestur og ég gat ekki sofið. Í byrjun nuddaði ég þó í kringum herðablaðið mitt með nuddbolta og framhendlegginn.
Mér þætti afar vænt um að fá svar um það hvað í veröldinni er að mér og hvernig best væri að bera sig að í að laga þennan verk. Svo væri einnig fróðlegt að vita hvernig mætti koma í veg fyrir verkinn og hvort að líklegt sé að þetta tengist æfingunni á einhvern hátt.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Til þess að komast að því hvað sé að þá þarftu að láta skoða þig, mögulega getur sjúkraþjálfi  aðstoðað þig í að finna út hvað sé á ferðinni en annars ráðlegg ég þér að heyra í lækni.

Gangi þér vel