verkjalyf

Er dolvipar ekki lengur skráð verkjalyf hér á landi.

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Það eru ansi mörg ár síðan það var tekið af markaði hér vegna mögulegar ávanbindingar og misnotkunar.

Ég birti hér svar við fyrirspurn um Dolvipar sem birt var hér  á doktor.is árið 2006. Þar er þetta útlistað ítarlega af lyfjafræðingi:

„Ástæðan fyrir því að Dolvipar var tekið af markaði fyrir nokkrum árum mun hafa verið að um verulega mikla misnotkun var að ræða af lyfinu. Um leið var talið af alla vega sumum sérfræðingum að það hefði ekki nægilega kosti sem verkjastillandi lyf umfram t.d. Parkódín að það réttlætti notkun þess.

Dolvipar töflur innihéldu 400 mg af parasetamóli, en almennt innihalda verkjatöflur 500 mg af parasetamóli.

Dolkvipar töflur innihéldu 10 mg af kódeíni þannig að hærra hlutfall var af kódeíni í þeim miðað við parasetamól, en parasetamól er aðal- vekjastillandi efnið í töflunum.

Barbítúrsýran phenóbarbital er til sem sérstakt lyf eða Fenemal Recip, töflur sem fást í styrkleikunum 15 mg, 50 mg og 100 mg.

Lyfið er eingöngu skráð við flogaveiki og er lítið notað í öðrum tilgangi í dag. Phenóbarbital er eina barbitúrsýran sem er ennþá á markaði hér, enda hafa önnur lyf löngu tekið við af þeim sem svefnlyf og róandi lyf.

Dolvipar innihélt líka koffeín 50 mg. Koffeín sem er jú m.a. í kaffi og kóladrykkjum er vægt örvandi lyf og er ekki lengur á markaði hér eitt sér.

Það er hins vegar til staðar í mígrenilyfinu Anervan, sjóveikilyfinu Koffinátín og verkjalyfjunum Somadril Comp. og Treo.

Dolvipar töflur innhéldu þannig þrjú efni, kódeín, phenóbarbital og koffeín sem hafa í för með sér einhverja vímu og vissa hættu á ávanabindingu.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur.“

Gangi þér vel