Verkir tengdir blæðingum

Góðan daginn,
Er með spurningu um verki á meðan á blæðingum stendur. Á 1.-3. degi blæðinga blæðir mjög mikið hjá mér (sem er örugglega eðlilegt) en ég fæ svo mikla verki í klofið, eins og þrýsting, að ég bara þarf að setjast / leggjast til að finna ekki til. Hef tekið verkjalyf en það virkar eiginlega ekki á þessa verki. Ég er ekki í rólegri vinnu og get því ekki sest niður eða lagst hvenær sem er. Þetta hrjáir mig frekar mikið, svo kem ég heim eftir að hafa þraukað vinnudaginn og þá get varla staðið, sem er ekki gott þar sem ég á tvö lítil börn. Hvað getur þetta verið?

 

Sæl

Takk fyrir fyrirspurnina

Það er yfirleitt eðlilegt að blæðingar séu meiri á fyrstu dögunum og einnig verkir. Tíðaverkir eru af sökum bólgu í leginu og geta verið í formi þrýstings. Ef þú færð slíka verki þá er mikilvægt fyrir þig að geta sest eða lagst niður til að draga úr þrýstingi á móðurlífið. Það gæti hjálpað að huga vel að mataræðinu á meðan á þessum verstu verkjum stendur, þar sem þungur matur getur aukið á verkina. Miklir túrverkir geta þó einnig orsakast af öðrum sjúkdómum svo ég ráðlegg þér að fara til kvensjúkdómalæknis.

 

Gangi þér vel