Verkir í náranum

Hæhæ, ég er búin að vera með hrikalega mikla verki í náranum, ég hélt fyrst að þetta væru bara fyrirtíðarverkir en þeir eru óvenju miklir svo ég fékk smá áhyggjur. Fyrir nokkrum dögum fékk ég líka mjög mikla verki á nýrnasvæðinu sem lýstu sér með ógleði, svima og mátt leysi alveg eins og núna, getur verið að þetta séu bara fyrirtíðarverkir eða nýrnasteinar?

Er eitthvað hægt að gera til þess að minnka verkin þar sem að verkjalyf hafa ekki dugað?

Takk fyrir.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Verkur í nára getu átt sér ýmsar skýringar. Tíðaverkir eru yfirleitt staðsettir neðarlega í kvið en geta haft leiðni aftur í spjaldhrygg og niður í nára. Verkir vegna nýrnasteina geta líka leitt niður í nára, þvagblöðru og ytri kynfæri þó upptökin séu í síðunni yfir nýrnasvæðinu. Aðrar mögulegar skýringar geta verið frá stoðkerfinu t.d. bólga í vöðvafestingum í kringum mjaðmaliðinn svo eitthvað sé nefnt. Eina leiðin til að komast að því hvað veldur þessum einkennum hjá þér er að fá skoðun hjá lækni. Ég hvet þig til að gera það, sérstaklega ef verknum fylgja önnur einkenni eins og ógleði, svimi og orkuleysi.

Gangi þér vel