Verkir i leggöngum

Ég er 47 ára kona og búin að vera með hormónalykkjuna i 12 ár og hef þvi nánast ekki haft blæðingar. Ég fór til kvensjúkdómalæknis fyrir örfáum árum til þess að láta taka lykkjuna en þá sagði hann að hún hefði færst úr stað og ekki auðvelt að taka hana. Hann sagði að hún væri hvorki að gera gagn né ógagn. En ég hef samt ekki byrjað að hafa blæðingar á ný. Síðastliðnu viku hef ég verið með blæðingar þó ekki jafnmikið og venjulegar túrblæðingar. Þetta virðist ekkert vera að minnka. Það sem er það versta það eru verkirnir. Ég hef aldrei verið með mikla túrverki en þessa viku finn ég fyrir sterkari verkjum dag hvern eins og inni i leggöngunum. Verkirnir eru skerandi og ég fer öll i keng. Minnir mig á hríðaverki. Ég hef vaknað upp á nóttinni vegna verkjanna. Ég hef einnig verið með óvenju mikið vindgang en hægðirnar eru eðlilegar. Hvað getur þetta verið?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þú skalt endilega fara til læknis og fá skoðun og mat á því hvað sé hér á ferð. Það getur verið að þú sért að byrja á breytingarskeiðinu og hormónalykkjan sé hætt að virka. Þá verða blæðingarnar oft óreglulegar og þá meiri þegar þær loksins koma. Þessu geta fylgt túrverkir þó svo þú hafir ekki haft þá áður. Hins vegar getur þetta líka verið lykkjan eða eitthvað allt annað.

Ég mæli sem sagt eindregið með því að þú ráðfærir þig við lækni.

Gangi þér vel