Verkir í kálfum.

Sæl verið þið.
Ég er 59 ára karlmaður og hef verið með mjög slæma verki í kálfum
til langs tíma.
Þetta eru miklir þreytuverkir sem eru verstir þegar ég er í hvíld.
Verkirnir eru til staðar strax á morgnana þegar ég vakna en verða
skárri þegar ég er kominn til vinnu, sirka 30-40 mín. eftir að ég vakna.
Verkirnir eru ekki til staðar á meðan ég er á hreyfingu en ef að
ég sest niður, t.d. í hádegi hellast verkirnir yfir mig, og í lok
vinnudags, ég vinn frá 07:30 – 17:00, er dagurinn búinn hjá mér ef
að ég sest niður, þá verða verkirnir það slæmir að ég get nánast
ekki gengið þar til ég fer að sofa. Svona er ég búinn að vera í
nokkur ár, allt frá 2008 þegar ég var fyrst var við þetta og fór
í blóðflæðisrannsók og til taugalæknis með kálfana og þar sýndu
rannsóknir ekkert óeðlilegt. Er eitthvað sem að þið getið bent mér
á að gera, rannsóknir eða eitthvað sem gæti hjálpað mér.

Með Þökk.

 

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Verkir í fótum geta stafað af ýmslum ástæðum og geta tengst beinum, liðum, sinum, sinaslíðrum, vöðvum, taugum og æðakerfi. Ef fæturnir eru oft kaldir og virðast blóðlitlir bendir það til þess að blóðrásin sé ekki í lagi. Ef blóðrásatruflanir hafa staðið um langan tíma getur húðin farið að dökkna og fæturnir orðið viðkvæmir. Sár verða lengi að gróa, eða að sár detta á húðina að sjálfu sér. Verkir sem tengjast skertu blóðflæði í fótum geta komið í hvíld og þá er oft einkennandi að þeir linast við að dingla fótunum eða ganga um gólf. Verkir frá beinum, liðum og sinum eru oftast tengdir vissum hreyfingum og oft má finna staðbundin eymsli ef þrýst er á ákveðna bletti. Miðað við þína lýsingu er þetta því ólíklegri skýring á einkennunum.

Það er erfitt að segja til um hvað það er sem er að valda þínum verkjum án þess að skoða þig eða rannsaka frekar. Vonandi koma þessar upplýsingar samt að gagni og þú nærð betur að átta þig á þínum einkennum. Ég ráðlegg þér að panta tíma hjá lækni og láta skoða þig og endurmeta. Miðað við lýsingu þína tel ég fulla ástæðu til að rannsaka þig aftur enda talsvert um liðið frá því síðast.

Gangi þér vel