Venja 16 mánaða að sofna sjálfur

Góðan daginn.
Ég er með einn 16 mánaða gutta, við höfum alltaf verið inni hjá honum meðan hann er að sofna en vegna mikilla framkvæmda erum við að fara búa til svefnherbergi fyrir hann…
Og þá langar mig að fara venjann á sitt eigið herbergi og að hann sofni sjálfur.
En mig vantar góð ráð hvernig er best að venjann á það.?
Án þess að hann gráti allan tímann… ef þið hafið eitthver góð ráð, þá væri mjög gott að fá þau.
Og takk kærlega fyrir frábæran vef.
Mjög hjálpsamur.. 🙂

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það eru ýmsar leiðir til og góð ráð og stundum þarf maður að velja úr það sem hentar best fyrir mann sjálfan og sín börn. Flestir eru þó sammála að mikilvægt sé að koma sér upp ákveðinni svefnrútínu, þ.e. að gera alltaf sömu hlutina fyrir svefninn svo barnið læri að skynja að það sé að koma háttatími. Þá er betra að hafa ró yfir heimilinu, klæða í náttföt, jafnvel fara í bað, bursta tennur, bjóða öðrum heimilismönnum góða nótt og svo framvegis. Mörgum finnst góður siður að skoða og lesa eina bók eða syngja einn söng áður en barnið er lagt. Ef það grætur er um að gera að láta það vita að þú svarir en svo eru flestir á því að best sé að barnið sofni sjálft. Þetta getur tekið nokkru kvöld eða jafnvel viku en ef maður er samkvæmur sjálfum sér og búinn að leggja þetta vel niður fyrir sér gengur þetta vel í flestum tilvikum.

Ég vil líka benda þér á lesefni sem til er um svefn og svefnvenjur barna. þú getur spurt á bókasafninu og fengið upplýsingar hjá þeim um vænlegt lesefni. Vinsælasta bókin í þessum efnum síðustu ár heitir Draumaland, Svefn og svefnvenjur  og er eftir Örnu Skúladóttur hjúkrunarfræðing.

Gangi þér vel