Vegna óæskilegs hárvaxtar

Sæl/l ég er 16 ára stelpa og alveg síðan ég hef verið um 7 ára hef ég verið með frekar mikinn hárvöxt á líkamanum. Byrjaði þó fyrst bara dökk og mikil hár á fótum og höndum sem var óeðlilegt miðað við jafnaldra mína. En svo eftir því sem ég eldist fæ ég á fleiri og fleiri staði t.d. á neðanvert bakið, rasskinnar, langt niður á nára, síðari „bartar“ en konur eru með og frekar dökk hár frá nafla og niður. Þetta hefur alltaf verið feimnismál hjá mér og vil helst ekki vera í stuttermabol fyrir framan annað fólk og er alveg hætt að fara í sund. Einnig hamlar þetta virkilega samskipti mín við hitt kynið og á mjög erfitt að vera náin fólki vegna þessa vandamáls.

Ég hef farið í 2 lasermeðferðir við höndunum á mér, en árángur er lítill sem enginn og mjög kostnaðarsamt. Ætti ég að kíkja fyrst á innkirtlalækni? Eru til lyf sem minnka hárvöxt? Hvað get ég gert?
Með bestu kveðjum.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þetta getur verið mjög hvimleitt vandamál en er þó vel þekkt. Orsakirnar eru ekki alltaf vel þekktar en oft má rekja þær til truflunar á hormónabúskap. Þess vegna ráðlegg ég þér að leita til læknis til að fá úr því skorið hvað sé mögulega að valda þessu og hvað sé hægt að gera.

Þú nefnir Lasermeðferð. Það eru ýmsar slíkar meðferðir í boði en læknisfræðilegur laser er  mun öflugri meðferð en sú sem snyrtistofurnar beita og gefur í flestum tilfellum betir árangur. Mögulega getur þú sótt um greiðsluþátttöku stéttarfélags  og hjá Sjúkratryggingum í kostnaði.

Gangi þér vel