Varðandi Herpes blóðprufu

Sæl/l

Í janúar tók ég áhættu í kynlífi þegar ég svaf hjá án getnaðarvarna. 10-15 dögum síðar tók mig að verkja í þvagrásina, nárann og eistun. Í fyrstu gátu læknar ekkert gert fyrir mig. Ég las mér til herpes 2 og varð hræddur um að ég hefði smitast. Sársaukinn og kvíðinn sem honum fylgdi var hræðilegur. Ég fór þrisvar í Húð og Kyn og skildi tvisvar eftir sýni. Það kom ekkert út úr því. Á heilsugæslunni var ég greindur með sýkingu í blöðruhálskirtli og var settur ciprox. Í kjölfarið fékk ég sveppasýkingu. Það byrjaði einhver tímann í febrúar en þetta er skrifað um miðjan apríl. Því fylgdi roði og óþægindi í kynfærum. Óttinn við Herpes 2 veiruna stakk aftur upp kollinum enda voru einkennin ekki ósvipuð því sem ég las á síðu landlæknis, þ.e roði, verkir í þvagrás og eistum. Ég hef ekki fengið blöðrur og sár og hef þ.a.l aldrei farið í sýnatöku líkt og er framkvæmd á Húð og Kyn. Þetta er eitthvað sem ég þarf að vita. Læknar hafa ekki getað hjálpað mér við að svara þessu og hafa ekki boðið mér að fara í blóðprufu líkt og ein kona gerði sem sendi til ykkar fyrirspurn (sjá hér: https://doktor.frettabladid.is/fyrirspurn/herpes-blodrannsoknir). Því spyr ég: Hvert get ég farið til þess að komast í blóð rannsókn? Gæti slík rannsókn svarað spurningunni um hvort ég sé með Herpes eða ekki?

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Mótefni er hægt að mæla í blóðprufum sem heimilislæknirinn þinn getur pantað fyrir þig. Ég mæli með því að þú farir til þíns heimilislæknis með þessar áhyggjur og fáir þar nánari útskýringar og mat á því hvort ástæða sé til þess að taka slíka prufu.

Gangi þér vel