Varðandi heilablæðingu

Daginn, ég var að velta einu fyrir mér. Amma mín fékk heilablæðingu fyrir nokkrum árum sem lýsir sér þannig að hún hefur misst skammtímaminnið ásamt þáttum sem tengist því. Ég hef lesið mér til um heilablæðingar og veit að hún getur verið arfgeng. Ég var að velta því fyrir mér hvort ég get eitthvað gert til að sjá hvort ég sé í áhættuhópi?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Arfgeng heilablæðing er séríslenskur erfðasjúkdómur sem stafar af stökkbreytingu og veldur heilablæðingu hjá ungu fólki. Þessi genagalli finnst í ákveðnum ættum á Íslandi og hefur erfst í nokkrar kynslóðir. Þú mundir vita það ef þessi erfðagalli væri til staðar í þinni fjölskyldu því þetta hefur mikil áhrif á líf og heilsu ungs fólks í þessum ættum.

Aftur á móti getur verið fjölskyldusaga um ákveðna áhættuþætti heilablæðingar og vert er að láta fylgjast með blóðþrýstingi og öðrum þekktum áhættuþáttum bæði ef það er fjölskyldusaga um heilablóðfall og / eða hjarta- og æðasjúkdóma

Helstu áhættuþættir heilablæðingar

· Háþrýstingur

· Reykingar

· Kyrrseta

· Offita

· Sumir hjartasjúkdómar (t.d. óreglulegur hjartsláttur/gáttaflökt)

· Sykursýki

· Hækkað kólesteról

· Áfengismisnotkun

· Getnaðarvarnapilla (á það einkum við ef konan reykir og er eldri en 35 ára)

· Streita

 Flestir þessara áhættuþátta tengjast ástandi hjarta- og æðakerfis. Með því að hugsa vel um hjarta og æðakerfi minnka líkurnar á heilablóðfalli. Flesta af þessum áhættuþáttum er hægt að hafa áhrif á með með því að huga að sínum lífsstíl.

Gangi þér vel