Valkvætt legnám?

Góðan daginn,

Mig langar að spyrjast fyrir um hvort að ég get valið sjálf að fara í legnám?
Þannig eru málavextir, ég er á fertugsaldri, á 3 heilbrigð börn, hef barist við PCOS síðan ég var unglingur og hefur það markerað sálarlífið mikið. Síðastliðin ár hef ég átt við gríðarlegt meðgöngu-og fæðingarþunglyndi að stríða í kjölfar þess að hafa þurft að berjast við ófrjósemina sem oft fylgir PCOS.
Núna er svo komið fyrir mér að ég þoli enga getnaðarvarnapillu, get ekki nýtt mér lykkjuna þar sem ég er með mikið aftursveigt leg og er komin með vægt blöðrusig.
Þegar ég hef blæðingar þá fæ ég gríðarmikla grindarverki (fékk mjög slæma grindargliðnun á meðgöngum) og miklar blæðingar og óskemmtilegur fylgikvilli er að ég hef ekki hægðir á meðan blæðingum stendur.
Kvensjúkdómalækni mínum þykir þetta óverulegar kvartanir og ég eigi eftir að sjá eftir því, fari ég í legnám.
Ég treysti mér engan vegin í aðra meðgöngu, hvorki likamlega né andlega, enda á ég 3 heilbrigð börn og hef nóg til að lifa fyrir.

Er enginn möguleiki fyrir mig að fara í valkvætt legnám?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Ég ráðlegg þér að ræða  við kvensjúkdómalækni og leggja spilin á borðið rétt eins og þú gerir hér að ofan. Það þarf að vega saman kosti og galla, með og móti aðgerð og taka svo ákvörðun í framhaldi. Ákvörðunin er svo þín að taka.

Gangi þér vel