Vakna alltaf milli 3 til 4 um nótt og er klukkutíma eða meira að sofna aftur

Ég er 23 ára stelpa. Nota ekki koffín, hreyfi mig reglulega, drekk bara vatn, borða hollt, í góðu formi, fer nær alltaf að sofa um 23:00, en á samt erfitt með svefn.. Vakna alltaf á milli 3 og 4 um nóttina og er oft klst eða meira að sofna aftur.
Þetta byrjaði fyrir um tveimur árum síðan. Þá byrjaði ég að taka diane mite pilluna og er að spá hvort hún sé að hafa þessi áhrif á mig. Þegar ég vakna um nóttina þarf ég kannski smá að pissa og er yfirleitt ekkert svo þreytt. En fer samt alltaf strax upp í rúm aftur þegar ég er búin að pissa og reyni að sofna. Stundum tekst það en upp á síðkastið tekur það langan tíma. Þetta hefur áhrif á næsta dag, því ég er þreytt líkamlega og andlega, en vakna samt næstu nótt aftur um svipað leyti. Ég er ekki þunglynd.
Veit að þetta gæti verið tengt stressi en ég hef alltaf verið nokkuð stressuð en það hefur aldrei haft áhrif á svefninn fyrr en núna. Mér finnst eins og ég sé komin í einhvern vítahring, að líkami minn sé farin að halda að ég eigi alltaf að vakna á þessum tíma, því oft er engin augljós ástæða fyrir því að ég vakna.
Ég er búin að ákveða að ég ætla að hætta á pillunni og sjá hvort þetta lagist en er hrædd um að ég fái bólur þar sem þær voru ein af ástæðunum af hverju ég byrjaði fyrst á pillunni. Ég er með nokkrar spurningar:

1. Hvernig get ég 100% hætt að vakna á nóttunni og komist úr þessum vítahring?
2. Ætti ég að sleppa að fara að pissa þegar ég vakna fyrst ég er ekki í spreng og halda mig í rúminu?
3. Hvernig kem ég í veg fyrir að fá bólur þegar ég hætti á pillunni? Ætti ég að taka góðgerla, tala við húðlækni, taka út eina og eina pillu í byrjun til að líkaminn venjist að vera án auka hormónanna?
4. Er mögulegt að fara í svefnrannsókn þar sem skoðað væri nákvæmlega hvers vegna ég er að vakna á nóttunni?
Ég hef farið til læknis út af þessu en fannst þeir ekki koma með nógu góð ráð fyrir þessu. Ég vil ekki fara á svefnlyf. Ég prófaði HAM og fannst það kannski virka smá og ætla aftur í það í haust.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Svefninn er undirstaða alls sem varðar heilsu okkar og heilbrigði og því afar mikilvægt að gera allt sem hægt er til þess að fá nægan svefn.

  1. Þetta að vakna á nóttunni virðist vera orðið að lærðri hegðun sem þú þarft að „aflæra“. Ég mæli með því að þú haldir þig við HAM meðferðina en svo er líka hægt að fá aðstoð og ráðgjöf hjá betrisvefn.is  en þar eru  sérfræðingar í svefnvanda að aðstoða fólk í svipaðri stöðu.
  2. Þú skalt endilega pissa ef þér er mál. Það er ekki vænlegt til árangurs að reyna að sofna og vera mál. Hins vegar gæti gagnast þér að drekka vel fyrrihluta dags og draga úr drykkju síðustu klukkutímana áður en þú ferð að sofa, þá ætti þér ekki að verða eins mikið mál. Mundu að þú ert að kenna kroppnum þínum nýjar reglur og það getur tekið tíma að sannfæra hann.
  3. Taktu ákvörðun um að hætta á pillunni í samráði við heilsugæslulækninn þinn. Bæði ertu aðeins eldri og mögulega meira jafnvægi komið á hormónana eða aðrar lausnir til sem myndu henta þér og þinni húð.
  4. Svefnrannsókn er til. Þú þarft tilvísun frá heimilislækni og það er töluverð bið eftir slíkri rannsókn. Flestir sem fara í slíka rannsókn gera það vegna gruns um kæfisvefn en í þínu tilfelli er það afar ólíklegt.

Allar líkur eru á að þú hafir átt við tímabundinn svefnvanda sem hefur náð að festa sig í sessi sem lærð hegðun og þú þarft að fá aðstoð við að kenna líkama þínum hvenær hann á að sofa. Ég hvet þig til að skoða síðuna hjá Betri Svefn sem ég bendi á hér að ofan.

Vonandi kemur þetta að gagni og gangi þér vel.

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur