Útferð úr brjóstum

Hæ hæ,
það skrýtna gerðist í dag að brjóstin mín fóru að leka….vökvinn er hvítur/glær og líkist mjólk svo ég hélt að ég væri kannski ólétt (brjóstin að undirbúa sig eða eitthvað) en ég tók próf og það er neikvætt. Þetta gerðist 1x fyrir 1-2 mánuðum (í miklu minna magni en nú) og svo núna í dag. (Ekki mjög mikið en samt óþægilega mikið þannig ég er farin að pæla í hvað þetta gæti verið, og hvort ég ætti að fara til heimilis- eða kvensjúkdómalæknis eða hvort þetta fari bara af sjálfu sér?
Takk fyrir
19 ára stelpa
(ps. ég er ekki búin að fá nein einkenni sem benda til þess að ég sé ólétt fyrir utan þetta og prófið var neikvætt svo ég held að þetta gæti verið eitthvað annað)

 

Sæl og tak fyrir fyrirspurnina.

 

Við höfum áður fengið svipað erindi og læt ég svar við því fylgja hér.

Algengast er að þegar lyktarlaus gulhvítur vökvi lekur úr brjóstum sé það vegna röskunar á hormónajafnvægi í líkamanum. Það er vel þekkt að konur sem taka getnaðarvarnartöflur fái útferð úr brjóstum, ekki valda þó allar getnaðarvarnartöflur þessu . Þetta getur einnig sést eftir að töku getanaðar- varnataflna er hætt. Ýmis önnur lyf eru einnig þekkt að því að geta valdið útferð úr brjóstum. Æxli í brjóstum geta valdið útferð, en það er þó afskaplega ólíklegt að sú sé ástæðan hjá 19 ára gamalli konu, en samt er mikilvægt að brjóstin séu skoðuð vandlega til að útiloka að svo sé. Önnur þekkt ástæða fyrir útferð úr brjóstum eru svokölluð Prólaktínframleiðandi æxli í heila, þetta eru góðkynja æxli sem framleiða hormónið prólaktín sem annars er framleitt þegar kona er banshafandi og með barn á brjósti og hvetur mjólkurframleiðslu. Til að útiloka að svo sé þarf að taka blóðprufu og rannsaka hormónamagnið. Þegar prólaktín er hækkað hætta konur hinsvegar yfirleitt að hafa blæðingar, en þú minnist ekki á að svo sé. Það er þó alltaf mikilvægt þegar kona verður vör við útferð úr brjósti eða brjóstum að leita læknis. Það er best að  hafa þá samband við heimilislækninn þinn með frekari skoðun í huga.

Gangi þér vel