Upplýsingar um ofnæmi.

Góðan daginn.
Var hjá húðsjúkdómalækni sem taldi að ég væri með ofnæmi sem héti „Hársekkjubólga“ eða follianlitis ef það er rétt lesið hjá mér. Langar að fá einhverjar meiri upplýsingar um þetta ofnæmi. Getið þið upplýst mig eitthvað frekar um þetta eða hvar ég get fundið þetta?

Kv.

 

Takk fyrir fyrirspurnina

 

Hársekkjubólga er nokkuð algengt vandamál þar sem bólga verður í hársekknum.

Það sem orsakar slíka bólgu er venjulega  bakteríu – eða sveppasýking.

Hársekkjubólga lítur út eins og rauðar eða hvítar bólur sem myndast um hvern hársekk. Sýkingin getur breiðst út og myndað sár.

Ekki er um að ræða alvarlegt ástand en getur verið hvimleitt og valdið kláða og sárum. Alvarlegar sýkingar geta þó valdið varanlegu hárlosi og örum.

Vægari tilfelli ganga yfir á nokkrum dögum en við alvarlegri einkenni eða síendurteknar hársekkjubólgur getur þurft að leita læknis.

Meðferð fer eftir eðli einkenna og getur læknir ávísað sýkladrepandi kremum, sveppakremum eða sterakremum til að draga úr bólgu.  Við alvarlegri tilfelli getur læknir ávísað lyfjum í töfluformi, sýkla – eða steralyfjum. Slíkt fer eftir mati læknis hverju sinni.

gangi þér vel