Upplýsingar um glasafrjóvganir

Spurning:

Það eru liðin um 3 ár síðan ég lét taka mig úr sambandi – „brennt fyrir“ eins og það er kallað. Nú hef ég kynnst manni sem kemur úr barnlausu hjónabandi – fyrri kona hans gat ekki eignast börn. Ég er fertug og hann 35. Ég á tvö börn frá fyrri tíð.

Mínar spurningar eru: Gætum við eignst börn með hjálp gervifrjógunar – miðað við að hann sé frjór og ég geti alið börn? Hvert ættum við að snúa okkur? Hvað má ætla að gervifrjógun – ef hún er möguleg, tæki okkur langan tíma þ.e. hversu langir eru biðlistar? Er ég kannski orðin of gömul?Með þökk.

Svar:

Það eru allar líkur á því að þú og maðurinn þinn getið eignast börn með hjálp glasafrjóvgunar, þar sem þú hefur áður eignast börn á eðlilegan hátt og að því gefnu að það hafi verið fyrri konan hans sem gat ekki átt börn en allt í lagi með hann sjálfan. Biðlistarnir eru langir og í dag er verið að skrá í aðgerðir í janúar 2002, en þar sem þú ert orðin fertug og konur eru ekki teknar til tæknifrjóvgunarmeðferðar eftir 42 ára aldur, er hugsanlegt að meðferð sé flýtt, en það er eitthvað sem þinn læknir og deildin myndu ákveða. Til að fá nánari upplýsingar um hvernig þið eigið að snúa ykkur skaltu hafa samband við tæknifrjóvgunardeild Landspítalans í síma 5601175.

Gangi þér vel,

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir læknir