Uppköst á æfingum/keppnum

Góða daginn

Ég er tvítug stelpa í íþróttum s.s. úthaldsíþrótt. Ég æfi frekar mikið og er í mjög góðu líkamlegu formi. Ég stefni langt í íþrótt minni, en ég hef verið að eiga við vandamál sem hefur verið að hindra mig. Það er að alltaf þegar ég geri æfingar með ákefð (t.d. interval), þá fæ ég alltaf skyndilega þörf til þess að kasta upp. Þetta gerist líka í keppnum, hef þurft að hætta ansi oft keppni vegna þess og sjaldan náð að sína mitt rétta andlit í keppni. Ég er aldrei kvíðin fyrir keppnir/æfingar svo það er ólíklega ástæðan. Ég hélt áður að ástæðan fyrir þessu væri sú að ég væri að borða alltof seint fyrir æfingar/keppnir, en ég hef verið að prófa mig áfram með því að borða á mismunandi tímum, s.s. 1 klst fyrir, 1,5 klst, 2 klst og allt upp í 4,5 klst, en það virðist breyta litlu, eða þá að það er of löngu fyrir þannig ég æfi svöng og orkulaus. Ég borða yfirleitt ristað brauð eða hafra og banana fyrir æfingu (sem er það sama og flestir sem ég veit um í sömu íþrótt gera). Ég pæli ekki mikið í mataræðinu, en reyni að borða fjölbreytt og hollt alla daga. Ég get því ekki séð að ég sé að gera neitt rangt í sambandi við mataræðið mitt. Ég hef talað um þetta við æfingafélaga og þjálfara og engin hefur lent í því sama eða heyrt um þetta vesen áður.
Mér dettur ekkert í hug sem ég gæti breytt, hef prófað svo margt, og þess vegna langar mig að spyrja hér hvort að það væru einhver ráð við þessu?

Með fyrirfram þökk!

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Við erum svo ólik að það er erfitt að benda á eina lausn við þessu og það eina sem ég get ráðlagt þér er að halda áfram að prófa þig áfram með mataræði og álag. Þessi viðbrögð líkamans eru líklega ábending til þín um að þú sért að fara yfir einhver mörk og mögulega tengist það á einhvern hátt mjólkursýrumyndun og/eða vöðvaniðurbroti. Kannski þarft þú að spá betur í hvernig þú nærir líkamann eftir æfingar til að hann jafni sig sem fyrst og verði sem best undirbúin undir næstu átök. Samsetningin á kolvetnunum sem þú borðar getur líka skipt máli. Ég set hérna inn áhugaverðan tengil um næringu í tenglsum við æfingar. Þarna eru nokkrar ráðleggingar sem þú getur prófað að fylgja í von um að þetta lagist.

Gangi þér vel