Tíð frunsumyndun

Ég er búin að vera fá frunsur mjög ört núna í hausti og sérstaklega seinustu tvo mánuði. Ég hef verið með frunsu og hún hefur varla verið farin þegar sú næsta kemur. Fyrir viku fékk ég þrjár í einu og allar á mismunandi staði á/í kringum varirnar. Ein á efri vör, ein á neðri vör og svo ein fyrir neðan neðri vörina. Núna viku seinna er ég að fá aftur frunsu á sama stað á efri vörinni.

Ég fékk uppáskrifaðar töflur við frunsunni hjá lækni fyrr á þessu ári sem ég hef verið að taka núna í haust/vetur um leið og ég finn fyrstu einkenni. Mér finnst skrítið að þessar frunsur komi alltaf aftur og aftur þrátt fyrir notkun á þessu lyfi.

Hvað gæti verið að valda þessari öru frunsumyndun? Hvers vegna eru lyfin ekki að virka betur en þetta? Ég hef prófað öll krem og því um líkt sem er ólyfseðilskilt í aptókum og ekkert af því virkar á mig. Ég er orðin frekar þreytt á þessu og langar að fá einhverja góða lausn á þessu vandamáli.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Frunsur er hvimleitt og leiðinlegt vandamál en þó ekki hættulegt. Frunsan, sem er herpersveira, liggur óvirk í taugarótum húðarinnar þar til eitthvað verður til þess að hún verði virk aftur og skríður uppá yfirborð húðarinnar. Kvef, mikið álag og streita getur haft áhrif og er því mikilvægt að hlúa vel að þeim þáttum sem styrkja ónæmiskerfið, sem eru almennt heilbrigði, fjölbreytt fæði, hreyfing og nægur svefn.

Einnig getur sólarljóss, tíðablæðingar eða hiti haft áhrif en hjá sumum er það enginn érstakur orsakavaldur.

Svo virðist sem þú sért með mörg ráð við frunsumyndum, en fáir þær þrátt fyrir það. Ráðlegg ég þér að leita til heimilislæknis sem getur vonandi fundið lausn á þessu máli með þér.

Gangi þér vel