Þreyta eftir pilluna!!

Ég er 36 ára og ég hætti á pillunni fyrir rúmu ári síðan eftir að hafa verið á henni í rúm 7 ár. Eftir að ég hætti á pillunni hef ég tekið eftir því að ég er gjörsamlega örmagna, hætt að fara í ræktina og hef varla orku í að gera það sem þarf s.s. þrífa setja í vél og allt annað sem heimilinu fylgir.
Getur verið að það séu tengsl þarna á milli?
Ég hef farið til læknis tvisvar eða þrisvar og eftir 5-10 mín þá eru þeir búnir að greina mig þunglynda og einu tilfellinu skrifaði hann uppá lyf fyrir mig, sem ég leysti reyndar aldrei út.
Ef raunin er sú að þetta er eitthvað hormónatengt hvað á ég þá að gera?
Eitt skiptið þegar ég fór til læknis bað ég um alsherjar blóðprufu og hvort hægt væri að mæla hjá mér hormónana, en hann sagði að það væri óþarfi því ég væri svo ung.
Þetta er farið að hafa svo svakaleg áhrif á mína andlegu heilsu að ég er stundum farin að velta því fyrir mér að ég gæti verið þunglynd en held samt að það sé ekki orrsökin heldur afleiðing.
Hvernig á ég að snúa mér í þessu?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Ég myndi ekki telja það vera samspil á milli þess að þú hættir á pillunni og farir í framhaldinu að finna fyrir þunglyndiseinkennum. Heldur að þetta sé samspil margra annarra þátta. Það er vissulega ekki hægt að útiloka að þetta sé hormónatengt, en þá dettur mér einna helst í hug að þetta sé skjaldkirtillinn að stríða þér. Einnig getur þetta verið járnleysi og eða byrjunareinkenni á breytingaskeiðinu.

Ég hvet þig eindregið til að fá lækni að skrifa uppá blóðrannsókn á þér, því þetta er augljóslega farið að hafa mikil áhrif á dagana þína.

Gangi þér sem allra best.