Svimi

Hæ ég er 13 ára gömul og ég vildi senda fyrirspurn af því  að það líður svo oft yfir mig. Ég fór í blóðprufu en það kom allt vel út sagði læknirinn. Ég tek inn D-vítamín og járn töflur en ekkert virkar. Það leið yfir mig áðan og ég skall með hausinn í gólfið og datt á rófubeinið nú get ég varla hreyft mig án þess að fá illt í rófubeinið. Ég er lika að passa að standa ekki hratt upp. En ég vona að þið getið hjálpað mér.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Yfirlið eru sjaldnast alvarleg og nokkuð algeng hjá ungu fólki. Yfirleitt tengist yfirlið skertu blóðflæði til heilans en ástæður þess geta verið margar t.d. of mikill hiti, ofþornun, löng kyrrseta, og blóðsykursfall. Ótti eða kvíði getur einnig valdið yfirliði en þá örvast taug sem hægir á hjartslætti sem veldur tímabundnum súrefnisskorti til heilans.

Einkenni um yfirvofandi yfirlið hjálpa til við greiningu og finnst mér líklegt að læknirinn hafi útilokað alvarlegri ástæður s.s. hjarta og æðakvilla. Þau einkenni sem um ræðir er svimi, máttleysi, dílar fyrir augunum, óskýr sjón, ógleði og fölvi. Ef þú finnur fyrir einhverjum af þessum einkennum er best að leggjast niður með fætur upp á stól eða sitja á hækjum sér með höfuðið milli fóta.  Þegar þér líður betur skaltu standa hægt upp. Vertu ávalt vel nærð og drekktu nægilegan vökva. Leitaðu aftur til heimilislæknis ef þú ert óörugg.

Gangi þér vel