Sviði við kynlíf

Ég fæ rosalegan sviða þegar ég er að stunda kynlíf og þegar við erum búin, Sviðin er við innri barma, það skiftir engu máli hvort að hann fær það inni mig eða ekki. Ég er búin að fara 3 til kvensjúkdómalænknis og hann er engu nær. Ég er að vera geðveik á þessu því að ég fæ svoo mikla verki og hef litla löngun til kynlífs útaf þessu og þetta er ekki að gera gott fyrir sambandið.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þetta er þekkt vandamál og getur átt sér ýmsar skýringar. Þú nefnir ekki hvað kvensjúkdómalæknirinn hefur ráðlagt þér eða hvað þú ert búin að reyna til að laga þetta en væntanlega hefur hann útilokað að um kynsjúkdóm sé að ræða. Svona einkenni geta líka verið merki um sveppasýkingu. Þú getur keypt lyf við sveppasýkingu í apóteki  og það gerir ekkert til að prófa það. Önnur skýring og kannski líklegri er að þú sért með lítið sár í leggöngunum eða á börmunum en það getur komið vegna núnings t.d ef þú ert ekki nógu blaut við samfarir. Þú getur prófað að skoða þig með spegli eftir samfarir til að athuga hvort þú sérð eitthvað á húðinni þar sem sviðinn er verstur. Það getur tekið tíma fyrir sár að jafna sig nógu vel til að það espist ekki upp við hvert skipti og hlé frá samförum gæti því verið nauðsynlegt til að gefa sárinu þann tíma sem það þarf til að gróa vel. Þið ættuð líka að nota sleypiefni til að minnka núning á viðkvæma svæðið á meðan þetta er að lagast.

Ef þetta eru allt ráð sem þú hefur áður prófað án árangurs ráðlegg ég þér að fara enn eina ferðina til kvensjúkdómalæknis og fá hann til að skoða þetta ítarlega með þér.