Sviði og stingur í munni

Seinustu 6 daga er ég búin að vera með þvííílíka stingi og sviða í tungu,gómi og koki og allstaðar þar, það er bara sárvont að drekka vatn og ennþá verra að drekka eitthvað annað og hvað þá að borða. Þetta byrjaði þannig en síðan byrjaði ég að fá hálsbólgu með þessu og er ég núna með bólgið kok, eitla og þetta leiðir í eyrun líka og bólgna munnvatnskirtla. Ég get ekki borðað neitt og varla drukkið útaf bæði sviðanum og bólgunum.
Ég er mjög slöpp með þessu, alltaf þreytt og mjög þreytuleg á daginn, og síðan get ég aldrei sofnað á næturnar.
Ég fór til læknis en hann sagði lítið sem ekkert, sagði mér bara að taka íbúfen en það gerir ekki neitt nema að deyfa bólgurnar í smá og enn get ég ekki komið neinu niður.
Vitið þið eitthvað hvað getur verið?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það eru ótalmargar veirur og bakteríur sem geta verið að valda þér þessum einkennum. Algengasta bakterían er streptokokka sýking, við henni er hægt að fá sýklalyf. Algengar veirur eru til dæmis þær sem valda frunsum (Herpes simplex) einkirningasótt (Epstien barr virus) og  sú sem veldur Handa,fóta og munnsjúkdómi

Suma af þessum sjúkdómum er hægt að gefa lyf við en öðrum er eingöngu hægt að meðhöndla einkennin til þess að viðkomandi geti liðið betur á meðan sjúkdómurinn er að ganga yfir

Ég ráðlegg þér að fara aftur til læknis og fá aðstoð við að fá bætta líðan því það er mikilvægt að þú getir nærst og drukkið til þess að  ná bata.