Sveppasýking og þröng forhúð

Góðan dag, ég er með hvíta skán á kónginum og held að það sé útaf að ég er með þrönga forhúð en ég hef fengið tvær daktakort túbur og hefur það skilað engum árangri. Það er mjög óþægilegt að koma við kónginn og alltaf þegar ég kem við hann fæ ég svona sting. Hvernig er best að tríta þetta. Vil helst ekki fara í umskurð.

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Hvít skán undir forhúð er ekki endilega sýkt.  Um er að ræða dauðar húðfrumur og fitu sem sest í húðfellingar eins og til dæmis undir forhúðina. Ef þetta er ekki þrifið getur komið í það sýking, bæði sveppir eða bakteríur. Þetta er kallað Balanitis á ensku. Ég set tengil á grein á ensku um þetta HÉR og svo aðra grein á íslensku HÉR.

Þú þarft að gæta að því að þrífa þessa skán amk daglega. Volgt vatn og mjúkur þvottapoki ætti að duga en alls ekki nota sápu.  Ef þetta heldur áfram að vera aumt og rautt eða þér finnst skánin aukast skaltur heyra í heimilislækni og fá frekari aðstoð.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur