Sveppasýking og kyndeyfð

Spurning:

Sæll Arnar.

Ég hef átt við sveppavandamál að stríða og hef notað Pevaryl við því en mér finnst það hætt að virka. Ég hef einnig prófað Vivag, en það virkaði ekki heldur. Er ekki eitthvað annað hægt að gera? Ég hef annað vandamál, því ég held ég sé haldin kyndeyfð, allavega er ég mjög sjaldan í stuði. Ég er á pillunni og ég er að velta fyrir mér hvort hún geti haft þessi áhrif? Ég var greind þunglynd fyrir nokkrum árum, en hef ekki verið á lyfjum vegna þess í næstum tvö ár, og lítið fundið fyrir einkennum þess, en getur verið að það hafi áhrif á kynlöngun mína?

Svar:

Sæl og blessuð.

Það eru mörg sveppalyf á markaði og það er með þau eins og önnur lyf að það er misjafnt hvað hverjum líkar best. Fyrst og fremst þarf maður að vera viss um að þetta séu sveppir, því margt sem talið er vera sveppir er eitthvað allt annað. Auk Pevaryls er til Canesten og Daktar o.fl. sem selt er í lausasölu. Ef þetta virkar ekki þarf læknisskoðun því iðulega kemur eitthvað fleira í ljós. Þunglyndi getur valdið kyndeyfð á köflum og svo er þekkt að ákveðnar konur missa móðinn á pillunni. Þetta tvennt ásamt mörgu öðru getur valdið kyndeyfð. Ef það er tilfellið að þú hafir verið frískari en finnir klárlega mun nú, gefur það tilefni til læknisheimsóknar og oftast má ráða bót á þessu.

Gangi þér vel,
Arnar Hauksson dr. med.