Svefnvandamál frá barnæsku

Mig langar að forvitnast um smá vandamál sem hefur fylgt mér frá því ég var 3-4 ára.

Þannig er mál með vexti að ég byrjaði að fá martraðir ca 3 ára og stóðu þær allavega til 6 ára aldur, en vandamálið er það að ég man eftir öllum þessum martröðum og voru þær allar alveg eins ! Mig byrjaði að dreyma þetta eins og ég sagði ca 3 – 4 ára og var þetta regluleg martröð hverja einustu nótt í einhver ár, með mismiklum látum þegar ég vaknaði emjandi haldandi um lappirnar á mér, en svona hljómar þessi martröð:

Ég er nakin bundin í einhvers konar klukkuverki, með langar lappir en blóðug á tánum því þær hafa verið settar neðst þar sem teinar klukkuverkisins mætist, þess vegna held ég að ég hafi dreymt mig sem fullorðna manneskju í þessum draumum, en ástæða martraðarinnar er sú að síðan byrjar klukkuvekið að snúast og fæturnir mínir fara þannig að hverfa niður þar sem það mætist… og þá vaknaði ég með látum og haldandi emjandi um tærnar og fæturnar á mér 🙁

Ég var bara nánast kornabarn þegar mig byrjaði að dreyma þetta fyrst, og alltaf mundi ég eftir þessum draumi algjörlega. Og enn í dag er ég að pæla í þessum draumum, en burtséð frá þeim þá get ég alveg viðurkennt að ég á enn í dag við svefnvandamál að stríða, þó ég sé orðin 42 ára gömul, og man alla drauma sem mig dreymir.

Það sem mig langar bara að vita hvort hægt sé að fæðast með kvíða, streitu, hræðslu eða eitthvað sem er sennileg orsök þessara drauma hjá mér.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er erfitt að segja til um orsök þessara martraða en það finna allir fyrir kvíða á einhverjum tímapunkti.  Kvíði er talinn nauðsynlegur fyrir þroska barna og aðlögun þeirra að umhverfi sínu en hann hjálpar þeim að greina á milli hættulegra og hættulausra aðstæðna.  Talað hefur verið um að börn geti verið með kvíðablandna skapgerð og skapgerðareinkenni eru talin vera meðfædd.  Varðandi  svefnvandamálið þá er góð grein inni á doktor.is sem gæti hjálpað þér , eins eru ráðleggingar á heimasíðu Betri svefns sem hafa hjálpað mörgum sem eiga við svefnvandamál að stríða.  Það gæti hjálpað að leita til sálfræðings sem gæti mögulega aðstoðað þig við að vinna úr þessari upplifun.

Gangi þér vel,