Sumarflensan 2016

Komið þið sæl.
Ég fékk flensu í sumar, úti í París. Þegar heim kom lagðist ég sárlasin með hita, allskonar verki og fyrst og fremst mikið máttleysi. Og eyrnabólgu. Þetta tók ca 10 daga og þetta var seinni part júlí. Ég hef enn ekki náð mér að fullu, er alltaf með smá hitaslór, verki hér og þar og mikla þreytu.
Er þetta lýsingin á svokallaðri sumarflensu? Mér skilst að margir hafi farið illa út úr henni. Ég hins vegar finn hvergi upplýsingar um hana á netinu.
Kv.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Sumarflensa er í raun samheiti yfir þær veirusýkingar sem eru að ganga að sumri. Þær gefa venjulega vægari einkenni en þær sem ganga að vetri en þó er auðvitað allur gangur á því.  Svo má ekki gleyma því að inflúensuveiran sem veldur yfirleitt svæsnustu einkennunum og hægt er að láta bólusetja sig gegn, er í stöðugri heimsreisu. Hún gengur um suðurhvelið þegar það er vetur þar og sumar hér og kemur svo norður til okkar  með vetrinum. Með vaxandi ferðalögum geta menn þess vegna krækt þá veiru.

Hjá Landlæknisembættinu er hægt að sjá hvaða veirur eru að valda veikindum landsmanna hverju sinni þegar veikindatoppar koma eða eitthvað óvenjulegt gerist. Ekki er komin nein tilkynning þar um að influensuveiru hafa orðið vart í sumar.

Meðferðin við svona flensum er alltaf sú sama, fara vel með sig, drekka vel af vökva og vera heima þar til orðinn hitalaus að fullu. Ef grunur er um að sýking sé komin í ennis- og kinnholur eða lungu í kjölfarið þarf að fá skoðun og mat hjá lækni m.t.t. hvort ástæða sé til þess að nota sýklalyf.

Gangi þér vel