Stress og þvagblaðran?!?!

Hæhæ, ég er með rosalega flókið vandamál og ég finn voða litlar upplýsingar um þetta, en nú er ég að gefast upp.. ég er semsagt 19 ára stelpa og ég er búin að vera að kljást við rosalega erfitt vandamál síðan í lok desember 2014. Ég lenti í því að vera í búð og allt í einu finn ég að ég þurfi rosalega mikið að pissa, og bara eins og ég muni ekki geta haldið því í mér. Ég hleyp út um allt í leit að klósetti og það er ekkert og enginn staður nálægt. Svo þegar ég keyri heim, er ég alveg að pissa á mig. Þá er bíll fastur þvert yfir götuna (þetta var um vetur) Ég gefst upp, set hasard ljósin á og hleyp út úr bílnum og þangað sem ég gat farið inn á milli trjáa og pissað. Eftir þetta kom ég titrandi og í sjokki labbandi heim.
Eftir þetta atvik, fæ ég svona eins og þvagblaðran herpist saman um leið og ég verð stressuð. Í löngum bílferðum eða einhversstaðar þar sem ég veit að ég kemst ekki á klósett strax. Þá stressast ég rosalega upp og líður eins og ég muni ekki ná að halda í mér. Þessu fylgir smá þvagleki af og til. Ég er búin að fara með þvagprufu 2x og það finnst ekkert í þvaginu. Svo ég er einfaldlega að gefast upp. Ég get ekki notið mín neins staðar úti á landi eða þar sem ég kemst ekki á klósett, það er það eina sem ég hugsa um, ég fæ kvíðakast ef ég kemst eki á klósett strax, ég pissa alls staðar þar sem er klósett bara svo ég viti að blaðran sé 100% tóm alltaf. Ég á mjög erfitt með langar bílferðir og kvíðir mikið fyrir að fara í útileigur og t.d. til Vestmannaeyja um verslunarmannahelgina.
Svo mig langaði að athuga hvort þetta þekkist og hvort það séu gefin einhver lyf eða einhver meðferð. Ég er bara að gefast upp, ég sé ekki fram á neitt líf framundan ef ég þarf að lifa með þessu, og það skilur mig enginn, mér er bara sagt að hætta að hugsa um þetta, ég hreinlega get það ekki.
Eru einhver úrræði, lyf, aðgerðir.. eitthvað ?

Sæl vertu,

Þar sem þú ert ung og að öllum líkindum ekki búin að fæða börn, er vafalaust ekki um áreynslu þvagleka að ræða heldur sálrænt ástand og kvíði við að komast ekki í tæka tíð á klósettið.  Samt sem áður er gott fyrir þig að komast til þvagfærasérfræðings sem getur metið hvort um eitthvað líffræðilegt ástand sé að ræða varðandi starfsemi þvagblöðrunnar. Þú gætir þurft að fá tilvísun til sérfræðingsins frá heimilislækni.

Það eru til lyf sem geta hjálpað til í þessu ástandi og í einstaka tilfellum þarf einstaklingurinn að fara í skurðaðgerð.  En ráðlegt er að byrja að styrkja grindarbotnsvöðvana reglulega yfir daginn.  Fínt er að styrkja grindarbotninn amk 4-5 sinnum yfir daginn á föstum tímum eins og á morgnanna áður en þú ferð fram úr, í hádeginu á meðan borðað er, í kaffitímanum um miðjan dag, við kvöldmatarborðið og síðan uppí rúmi fyrir svefn að kveldi. Mælt er með því að vöðvar grindarbotnsins séu herptir saman í 5-10 sekúndur í senn nokkrum sinnum.  Ef þú átt erfitt með að finna hvernig grindarbotnsvöðvinn virkar þá er gott að átta sig á virkni hans með því að stoppa þvagbununa einu sinni. Það er samt sem áður ekki ráðlagt að nota þessa aðferð til þess að styrkja grindarbotnsvöðvann í áframhaldi.

Mikilvægt er að efla sjálfstjórn og sjálfsöryggið og telja sér trú um að ástandið muni verða í lagi.  Gera sér föst plön um salernisferðir yfir daginn til þess að minnka kvíðann yfir því að eitthvað óútreiknanlegt geti gerst.

 

Kveðja, Hjúkrunarfræðingur Heilsuverndar ehf