Stara

Hæhæ, ég er á unglingastigi í Grunnskóla og fæ mjög oft störu og ég var að velta fyrir mér hvort það vær alvegi eðlilegt því þetta gerist mjög oft hjá mér. Oft í tímum þegar kennarinn er að tala dett ég út og fæ störu á töfluna og líka í frímínútum. Hvort sem ég er þreytt eða ekki þá fæ ég sífelt störu og um daginn voru vinir mínir að telja hjá mér störurnar og ég fékk 12 sinnum störu í 45 mínútna tíma! Er þetta alveg eðlilegt? Hvað gæti ég gert við þessu?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Þetta getur verið það sem kallað er störuflog og er einmitt algengt hjá einstaklingum á aldrinum 15-20 ára. Störuflog lýsir sér þannig að viðkomandi verður fjarrænn, starir framfyrir sig, sjáöldur víkka og stundum blikka augun eða verða kippir í andlitinu. Þetta stendur yfirleitt yfir í nokkrar sekúndur í einu og þegar þetta gengur yfir getur viðkomandi haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Köstin geta komið mörgum sinnum á dag og geta auðveldlega farið framhjá einstaklingnum sjálfum, aðstandendum og kennurum. Stundum er ruglast á þessu og dagdraumum eða einbeitingarleysi. Það er mikilvægt að þú pantir tíma hjá lækni og fáir úr því skorið hort þessi köst séu störuflog, því það er hægt að halda þessu í skefjum með lyfjameðferð og mjög mikilvægt að það sé gert. Í flestum tilfellum gengur þetta yfir og hættir fyrir 20 ára aldurinn.

Gangi þér vel