Stálhjartaloka og húðflúr

Heil og sæl.

Nú er ég svolítið gallað eintak og fór í hjartaaðgerð fyrir rúmu ári þar sem var sett í mig stálhjartaloka í staðinn fyrir sýkta og leka ósæðarloku. Nú hefur mig langað að bæta aðeins í húðflúr safnið mitt og velti ég því fyrir mér hvort ég megi það eða ekki? á ekki tíma hjá mínum lækni á næstunni til að spyrja hann að því.

Er á blóðþynningu og 3 týpum af hjartalyfjum ef það skiptir máli.

 

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Að vera með stálhjartaloku og á blóðþynningalyfjum eða öðrum lyfjum er ekki frábending fyrir að fá sér húðflúr.  Auðvitað er þó nauðsynlegt að vera meðvitaður um almenna áhættu eða hugsanlega fylgikvilla þess að fá sér húðflúr s.s. bakteríusýkingar í húðinni.  Einnig að vera viss um að hreinlæti sé ekki ábótavant til að forðast smitsjúkdóma á borð við lifrarbólgu B og C, berkla, stífkrampa og HIV.

Gangi þér vel.