Snögg þörf til þvagláts

Sæl verið þið. Síðasta ca. hálfa árið fæ ég snögga þörf til þvagláts, finnst ég vera að pissa a mig en svo kemur ekki mikið þvag. Hvað getur valdið þessu. Er 60 ára karlmaður. Er ekki með verki, þvag tært og engin óvenjuleg lykt af því.

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Ég mun nefna hér líkleglgar ástæður fyrir þessum einkennum:

  • Stækkaður blöðruhálskirtill: þegar þessi kirtill stækkar eru miklar líkur á að hann þrengi að þvagrásinni og geti því valdið erfiðleikum við þvaglát. Einkenni geta verið: örar klósettferðir og klósettferðir á næturnar, erfiðleikar að koma þvagi af stað, þvagleki, tilfinning eins og þvagblaðran tæmi sig ekki, mikil þörf til þvagláts og jafnvel þó stutt sé frá síðustu klósettferð. Stækkaður blöðruhálskirtill er sjaldgæfur hjá mönnum undir 40 ára en við 80 ára aldur hafa 90% karlmanna fengið það. Áhættuþættir þess eru meðal annars fjölskyldusaga, sykursýki, hjartasjúkdómar, offita, hreyfingarleysi, ristruflanir og sum lyf.
  • Þvagfærasýking: einkenni eru meðal annars: verkir við þvaglát, mikil þörf til þvagláts, oft er blóð í þvagi og verkir neðarlega í kvið. Karlmenn með stækkaðan blöðruhálskirtil eru í meiri hættu að fá þvagfærasýkingu.

Hvort sem þessi einkenni tilheyra einhverju ofantöldu tel ég mikilvægt að þú heyrir strax í lækni og látir athuga þetta betur.

Gangi þér vel

Rebekka Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur