Snemmsónar og legvatnsprufa

Spurning:

Ég er barnshafandi og komin 8 vikur á leið. Ég hef mikið verið að velta fyrir mér að fara í snemmsónar eða legvatnsprufu. (Ég missti fóstur í sumar).

Ég er 33ja ára. Er einhver ástæða fyrir mig að fara í slíkt? Átti fyrir 2 árum 19 marka alheilbrigðan dreng.

Ég hef þyngst um 3 kg. þessar átta vikur en tel mig hafa verið mjög varkára hvað matarræði varðar og stunda líkamsrækt reglulega. (Hef verið í kjörþyngd og með tiltölulega lága fituprósentu, 16% ca.). Er þessi þyngdaraukning skiljanleg? Er þarna um að ræða fitusöfnun eða vatnsaukningu? Mig langar til að vita þetta því ef ég held áfram að þyngjast með sama hraða stefnir í óefni hjá mér.

Með kveðju.

Svar:

Sæl.

Eitt fósturlát gefur ekki tilefni til að gera legvatnsástungu hjá þér. Raunin er sú að hættan á fósturláti í kjölfar legvatnsástungu er 1/100 en hættan á litningagalla hjá þínum aldurshóp er 1/4-500, þannig að hættan á fósturláti er 4-5 föld á við hættuna á litningagalla. Snemmsónar stendur einungis þeim konum til boða sem eru í áhættuhóp vegna fósturgalla eða hjartagalla eða hafa náð 35 ára aldri, vegna þess að við það aldursmark eykst hættan á litningagöllum hratt. Nánari upplýsingar geturðu fengið hjá fósturgreiningadeildinni í síma 560 1158.

Hvað varðar þyngdaraukninguna er hún mjög eðlileg. Við þungun byrjar líkaminn strax að safna í sig vökva, mest í formi aukins blóðvökva.

Blóðmagn líkamans eykst um þriðjung á meðgöngu og það byrjar strax að koma í ljós. Einnig er eðlilegt að það verði dálítil fitusöfnun undir lok meðgöngu sem forði fyrir brjóstagjöfina. Svo eykst einnig vöðvamassi í rassi, lærum og kálfum þegar kúlan fer að síga í þegar líður á meðgöngu.

Eðlileg þyngdaraukning er um 12-15 kíló, mest fyrst og svo í lokin. Vertu bara skynsöm í mataræði og hreyfingu og drekktu mikið af hreinu vatni, þá eru meiri líkur á að þú sleppir við óþarfa þyngdaraukningu á meðgöngunni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir