Slím í berkjum vegna reykinga

Daginn,

Ég er búinn að vera með reykingahosta í 3 og hálft ár, sem lýsir sér í miklum hósta og gulri slímmyndun. En ég er buinn að vera hættur að reykja í 3 mánuði og hóstinn er aðeins minni og ekki er eins vont að hósta lengur, en slímmyndunin er ekkert að lagast. Ég reykti í kringum 8 sígarettur á dag í 13 ár. Ég hélt að þetta væri langvinn berkjubólga en læknir sem ég talaði við fyrir svolitlu síðan vildi meina að svo væri ekki og þetta tæki sinn tíma að lagast eftir að reykingun er hætt. En mér finnst þetta samt skrítið að það skuli myndast svona mikið slím ennþá. Var þetta bara skottulæknir sem ég talaði við kannski?

Kv,

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Í heilbrigðum lungum eru bifhárin á stöðugri hreyfingu og sópa slíminu upp jafnóðum svo það safnast ekki fyrir. Hjá reykingamönnum lamast bifhárin og ná þvi ekki að sinna því að hreinsa lungun af slími. Þegar þú hættir að reykja taka bifhárin aftur til starfa og þá getur átt sér stað hreinsum á slími sem var farið að setjast fyrir í lungunum. Mér finnst líklegast að þetta sé skýringin á því að þú ert enn að hósta upp slími. Það er því í raun jákvætt þar sem það er merki um að bifhárin þín séu að taka við sér og lungun að hreinsast.

Gangi þér vel