Síendurtekin sveppasýking í kynfærum

Sæl/l

Ég byrjaði á föstu fyrir einu og hálfu ári síðan. Um leið og við byrjuðum að stunda reglubundið kynlíf hef ég fundið fyrir sveppasýkingu sem lýsir sér þannig að útferðin sést vel í nærbuxunum og það er frekar mikið af einhverju hvítu á kynfærum mínum sem lítur nokkurn vegin út eins og leifar af klósettpappir. Stundum er líka vont að pissa en það er vanalega bara þegar ég er búin að vera með mikil einkenni.
Ég hef farið í það minnsta þrisvar til heimilislæknis og einu sinni til kvensjúkdómalæknis og lesið mér helling til en hef nánast enga von eftir. Hef farið á sýklalyf, tekið töflur, og notað Pevaryl og Canesten bæði stíla og krem. Prufaði líka að borða AB mjólk einu sinni á dag í tvær vikur en ekkert breyttist. Prufaði líka í tvær vikur að taka Bio-Kult kandela en þetta hætti ekki. Hefði prufað það lengur en var alltaf að gleyma þessu því það þarf að taka það með mat og ég er í skóla og hef mikið að gera og ekki svo minnug því miður.
Af öðrum ástæðum borða ég mikið minni sykur en áður sem er gott því ég veit að sykur er einn mesti óvinur sveppasýkingar. Mér sýnist það bera smá árangur en þetta hættir ekki. Lítið stundum og stundum ekkert en finn fyrir þessu amk. einu sinni í mánuði og oft mikið í langan tíma. Oft óbærilegur kláði og líka bara leiðinlegt að “fela“ þetta því ég eiginlega skammast mín fyrir þetta.
Ég hreinsa mig reglulega og skipti amk. tvisvar á sólarhring um nærbuxur.

Hugsa hvort að ég sé bara “gölluð“ og muni þurfa að lifa með þessu að eilífu. Fannst mjög leiðinlegt að heyra heimilislækninn minn segja að þetta “gæti elst af mér“ en væri ekki víst. Ég er tilbúin að reyna hvað sem er en ekki tilbúin að lifa svona það sem eftir er. Bæði leiðinlegt og óþægindi fyrir mig og tekur á andlegu hliðina líka því það hefur áhrif á kynlífið okkar, okkur líður betur og erum nánari og þolinmæðari þegar við stundum kynlíf reglulega, ekkert endilega oft en helst einu sinni í viku. Það líður stundum lengri tími því að þetta er mjög óþægilegt fyrir mig og mér líður ekki alltaf vel með mikil einkenni. Ég hætti á pillunni og notaði smokk í nokkra mánuði því kvensjúkdómalæknirinn sagði að sýrustigið í sæðinu gæti valdið þessu en einkennin héldu samt áfram að koma. Hann hefur smitast en hefur í þau skipti fengið Pevaryl eða Canesten og það dugað.

HJÁLP, í öllum guðanna bænum. Vona svo innilega að á þessu finnist lausn.

Langar líka að segja frá því að ég las um daginn grein frá fertugri konu sem hefur gengið í gegnum svipað ferli, bara gott að vita að ég er ekki ein í þessum pakka.

Fyrirfram þakkir.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þú virðist vera búin að kynna þér þetta vel og reyna flest öll ráð „í bókinni“. Það eina sem ekki kemur fram hjá þér er hvort makinn þinn hafi verið meðhöndlaður um leið og þú? Það er yfirleitt ekki nauðsynlegt nema að hann hafi líka einkenni en þar sem svona illa gengur að ráða bót á þessu þá mætti reyna að meðhöndla ykkur bæði á sama tíma.

Ekki gefast upp, þetta getur verið mjög þrálátt en þú vinnur sigur að lokum ef þú heldur þig staðfastlega við að breyta sýrustiginu í leggöngunum t.a.m. með  því að minnka sykurneyslu og nota AB gerla/acidophylus og lyf.

Gangi þér vel