Sársaukafullar hægðir

Spurning:

Ég á við smá vandamál að stríða, ef svo má segja, en alltaf þegar ég þarf að ,,losa hægðir mínar í föstum efnum” þá kemur blóð með, mismunandi mikið þó. Yfirleitt ekki mikið en fyrir utan það, er það frekar sársaukafullt. Ég er yfirleitt um 15 mín. á klósettinu þegar þetta er svona. Þetta var fyrst bara smá, hætti svo, kom svo aftur. Og versnaði núna en svo hefur blóðið minnkað sem kemur með en sársaukinn lítið.

Hvað er til ráða? Af hverju stafar þetta?

Með von um svör

Svar:

Blóð með hægðum er nokkuð algengt vandamál og á sér ýmsar orsakir. Líklegt er í þínu tilviki að um gyllinæð sé að ræða. Það er bláæðagúll í slímhúð endaþarmsins sem getur bólgnað, valdið sársauka og úr honum blætt. Önnur orsök og einnig algeng er sprunga í slímhúðinni við endaþarminn (fissura ani). Mikilvægt er að greina hvaðan blæðing með hægðum kemur, þar sem í sumum tilvikum getur blæðingin verið ábending um sjúkdóm í meltingarveginum sem þarf að greina og meðhöndla. Þitt næsta skref myndi því vera að leita til þíns heimilislæknis sem getur annaðhvort greint strax hver orsök blæðingarinnar er og meðhöndlað eða sagt til um hvaða rannsóknir skuli gera til að komast að rót vandans. Þangað til getur þú bætt líðan þína með því að halda hægðunum mjúkum með því að drekka mikið vatn og borða trefjaríka fæðu. Mikilvægt er að losa hægðir reglulega því þær verða harðari því lengur sem þær eru í ristlinum þar sem þá frásogast frá þeim meira vatn. Einnig getur þú notað feitt krem s.s. vaselín til að bera á endaþarminn þegar þú hefur hægðir til að mýkja og smyrja slímhúðina.
Gangi þér vel,

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir