Særindi í hálsi, sífelldur hósti.

Góðan og margblessaðan daginn,
mig langar að forvitnast & spyrja ykkur að nokkru. Uppá síðkastið (undanfarnar vikur, jafnvel nokkra mánuði) finnst mér ég finna fyrir ertingu í hálsinum og hósta í sífellu í dágóðan tíma.
Þegar ég borða einstaka sinnum finnst mér ég þurfa að ræskja mig hvað eftir annað. Skiptir engu máli hvaða tími sólarhringsins kvölds eða morgna, sama vandamál. Næturnar eru friðlausar.
Hvað gæti þetta verið, skjaldkirtilinn eða eitthvað annað..?
Virðingarfyllst & mbkv.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Langflestir sjúkdómar í hálsi eru staðbundið vandamál eins og t.d. barkabólga, bólga í raddböndum, sýkingar og jafnvel geta æxli gefið einkenni frá hálsi sem bæði geta verið erfið og þrálát. Aðeins í einstaka tilvikum eru óþægindi frá hálsi tengd vélindabakflæði. Því er mikilvægt að allir þeir sem fá einkenni um langvinnan hósta, hæsi eða kökk í hálsi, leiti fyrst til læknis sem getur gert ítarlega skoðun á munnholi og hálsi til að útiloka staðbundna sjúkdóma sem orsök einkennanna. Ef ítarleg skoðun á hálsi leiðir ekki í ljós sérstaka ástæðu er rétt að hafa í huga möguleikann á vélindabakflæði sem orsök. Ræddu þetta við lækninn þinn og fáðu hann til að fara yfir þetta allt með þér.

Gangi þér/ykkur vel

með kveðju,

Thelma Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.